Mörk leggur börnum í Nepal lið

Hjúkrunarheimilið Mörk leggur lið neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Nepal.
Hjúkrunarheimilið Mörk leggur lið neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Nepal.

Íbúar og starfsmenn á hjúkrunarheimilinu Mörk blása í dag til söfnunar til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í NepalEins og fram hefur komið hafa kröftugir jarðskjálftar valdið gríðarlegu tjóni þar í landi. 

Klukkan 16:30 í dag standa þau fyrir bingó- og pizzaveislu og allur ágóði rennur til neyðarsöfnunar UNICEF. Fjöldi fyrirtækja hefur lagt málefninu lið með því að gefa vinninga fyrir bingóið.​

Í fréttatilkynningu kemur fram að bingóspjaldið muni kosta 500 kr. og pizzuveislan 1000 kr. Viðburðurinn fer fram á 1. hæð í Mörk, Suðurlandsbraut 66, og í tilkynningunni segir að allir séu hjartanlega velkomnir.

„Þetta er frábært framtak hjá íbúum og starfsmönnum á hjúkrunarheimilinu Mörk og við erum þeim innilega þakklát,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

„Neyðin í Nepal er mjög mikil og börn afar berskjölduð. UNICEF hefur þegar veitt umfangsmikla neyðarhjálp á jarðskjálftasvæðinu: Dreift vatni, hreinlætisgögnum, lyfjum, tjöldum og teppum, veitt börnum sálrænan stuðning, bólusett þau gegn mislingum og sett upp tímabundna skóla. Allur stuðningur við þetta mikilvæga hjálparstarf skiptir gríðarlega miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert