Hlutfall fjarveru á opinberum vinnustöðum er mun hærra en á einkareknum vinnustöðum, og er tíðni veikinda hjá starfsfólki á opinberum vinnustöðum nánast helmingi meiri en hjá starfsfólki á þeim einkareknu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem fjallað er um í nýju fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana.
Samkvæmt þeim tölum sem safnað var í verkefninu var hlutfall fjarveru hærra á opinberum vinnustöðum í samanburði við einkarekna vinnustaði öll þrjú árin sem verkefnið stóð yfir, eða 19,7 á móti 9,9. Starfsmenn á opinberum vinnustöðum eru einnig fleiri daga frá að meðaltali vegna veikinda barna en þeir sem vinna á einkareknum vinnustöðum eða 2,1 á móti 1. Þetta á einnig við um tíðni veikinda en árið 2014 voru starfsmenn á opinberum vinnustöðum rúmlega fimm sinnum veikir yfir árið í samanburði við rúmlega þrisvar sinnum á einkareknu vinnustöðunum. „Er þessi munur sláandi og gríðarlega mikilvægt að komast að ástæðum hans.“
Er forstöðumönnum og öðrum stjórnendum bent á að nýta þau verkfæri sem þeim standa til boða við viðverustjórnun sinna starfsmanna. Er þar bent á viðverustjórnunarkerfið Vinnustund, sem er hluti af mannauðskerfi Oracle, en jafnframt tekið fram að svo kerfið geti nýst þurfi að nota það. Um helmingur stofnana ríkisins nýta sér kerfið en þar af eru einungis 30% sem nýta það til fulls.
„Það er mikilvægt að ríkið sem vinnustaður hafi gott yfirlit yfir viðveru sinna starfsmanna. Þar sem núverandi fyrirkomulag skráningar býður ekki upp á miðlæga vinnslu tölfræðinnar treystir KMR á að forstöðumenn nýti Vinnustund svo réttar tölur um viðveru starfsmanna liggi fyrir. Slík tölfræði er til að mynda grundvallaratriði þegar kemur að kjarasamningsgerð, varðandi þætti eins og endurskoðun á veikindaréttindakafla kjarasamninga.“
Niðurstöður þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sýna einnig að öflug viðverustjórnun getur dregið verulega úr útgjöldum stofnunar. „Sem dæmi um það hagræði sem hægt er að ná fram með virkri viðverustjórnun má nefna að eitt þátttökufyrirtæki sparaði 2,5 milljónir króna á ársgrundvelli með fækkun skammtímafjarveru hjá starfsmönnum. Það er því til mikils að vinna.“