„Það er mjög langt í land og enginn flötur á milli manna í þessari stöðu,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Viðræður SA við VR og Flóabandalagið sigldu í strand í gær og hefur ekki verið boðaður nýr fundur í deilunni.
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR, segir hugmyndir SA um breytingar á vinnutímafyrirkomulagi vera ástæðuna fyrir slitunum. „Við lögðum fram ýmsar hugmyndir sem við höfðum hugsað okkur að tala eitthvað meira um, en þeir höfnuðu því að sinni.“
SA sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem orðum Ólafíu er hafnað.
„SA hafa verið tilbúin að koma til móts við kröfur verkslýðsfélaganna um verulega hækkun lægstu launa og umtalsverða hækkun dagvinnulauna fyrir þriggja ára samning, eða sem nemur um 24% hækkun. Þessu boði höfnuðu verkslýðsfélögin án þess að leggja fram nokkrar raunhæfar lausnir um nýjan kjarasamning.“
Félagsmenn stéttarfélaga sem fara í verkfall, og eru atvinnuleitendur á fyrstu fjórum vikum atvinnuleysisbóta, missa atvinnuleysisbæturnar tímabundið verði verkfall. Leysist verkfallið áður en þessar fjórar vikur eru liðnar hefst greiðsla bóta.
„Við höfum reynt að túlka lögin frekar rúmt en þröngt í þessu sambandi,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. „Þetta varðar bara fyrstu fjórar vikurnar sem fólk er á bótum og hefur áhrif á hvort það fær bætur greiddar þann tíma eða ekki.“
Á öryggisskrá hjúkrunarfræðinga, eða undanþágulista, er sá fjöldi sem skal vera við störf á hverri stofnun og deild ríkisins. Ríkið fjölgaði á skránni en Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vildi fækka um 40. Félagsdómur hefur fellt dóm þar sem samþykkt var að fækka um 15. Við það eru hjúkrunarfræðingar ósáttir.
Félagsmenn VR og LÍV hafa samþykkt að fara í verkfall en þátttaka í atkvæðagreiðslum var dræm. Verslunarmenn á Akureyri hjá Félagi atvinnurekenda fara þó ekki í verkfall, þar féllu átta atkvæði á jöfnu.