Dýralæknar vilja tryggja heilbrigði dýra

Dýralæknafélag Íslands ákveðið að taka tillit til þess við afgreiðslu undanþágubeiðna að hætta sé á að framleiðendur svína- og alifuglakjöts muni eiga í erfiðleikum með að afla aðfanga og fóðurs fyrir búfénað sinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. 

Sú ákvörðun er tekin í ljósi þess að dýralæknar hafi alla tíð haft velferð dýra á leiðarljós og vinna öðrum fremur að því að tryggja góðan aðbúnað og heilbrigði dýra, bæði í verkfalli og utan þess, segir í tilkynningu. 

„Staða mála í samningaviðræðum BHM og samninganefndar ríkisins er alvarleg og bendir margt til þess að ríkið ætli ekki að koma til samningaborðsins með neinar lausnir fyrr en samið hefur verið á almennum markaði. Á sama tíma þyngist róðurinn hjá þeim sem aðgerðaleysi stjórnvalda bitnar á,“ segir í fréttatilkynningunni.

Félagið harmar afstöðu stjórnvalda til starfsmanna sinna og skorar á ríkið að horfast í augu við ábyrgð sína og leysa tafarlaust úr málum.

Verkfall dýralækna innan BHM hefur staðið yfir í sex vikur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert