Gott er að huga að verði áður en lagt er af stað að kaupa fisk í soðið. Munur á dýrasta og ódýrasta fisknum úr fiskborðum er allt að 153%. Það var munurinn á súrum hval en hann kostar 3.763 kr./kg. hjá Fiskbúð Sjávarfangs en er ódýrastur 1.490 kr./kg. hjá Litlu fiskbúðinni Háaleitisbraut.
Kemur þetta fram hjá verðlagseftirliti ASÍ sem gerði verðsamanburð á fiskafurðum í 25 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð, víðsvegar um landið í gær. Kannað var verð á 33 algengum tegundum fiskafurða. Í um 70% tilvika var verðmunurinn á hæsta og lægsta að lágmarki 50%. Fiskbúðin Hafberg, Fiskikóngurinn, Fiskbúðin Vegamót Nesvegi og Fiskbúðin Vík Reykjanesbæ neituðu þátttöku í könnuninni.
Lægsta verðið var oftast að finna hjá Litlu Fiskbúðinni Miðvangi Hafnarfirði eða í 14 tilvikum af 33 og hjá Litlu Fiskbúðinni Háaleitisbraut í 9 tilvikum. Verslunin Kjöt og fiskur Bergstaðastræti var með hæsta verðið í 6 tilvikum af 33 og Melabúðin, Hafið fiskiprinsinn Hlíðarsmára og Gallerý fiskur Nethyl voru með hæsta verðið í 4 tilvikum. Aðeins Fiskbúð Sjávarfangs Ísafirði átti til allar tegundirnar sem skoðaðar voru í könnuninni en þar á eftir komu Litla fiskbúðin Háaleitisbraut og Gallerý fiskur sem áttu til 30 tegundir.
Verðlagseftirlitið bendir á að þeir leggja ekki mat á gæði eða þjónustu, aðeins verðið.
Hér má sjá frétt ASÍ um verðsamanburðinn.