Baldur Arnarson
Forystumenn VR, Eflingar og BHM segja að ekki verði lengra haldið í kjaraviðræðunum nema að Samtök atvinnulífsins og ríkið setji hugmyndir um breytt fyrirkomulag vinnutíma og launa til hliðar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að vegna áherslu Samtaka atvinnulífsins á að ræða vinnutíma en ekki launakröfur séu menn „komnir upp að vegg í viðræðunum“. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir að ef hugmyndir SA um breytta skilgreiningu á vinnutíma og launum séu teknar af dagskrá „sé vel hægt að ná samningum“. Páll Halldórsson, formaður BHM, segir hugmyndir samninganefndar ríkisins um breyttan vinnutíma svo óljósar að ekki sé hægt að ræða um tilboð.
Ekki náðist í Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA, vegna málsins. Eftir helgina hefst ný lota verkfalla sem gæti náð hámarki með allsherjarverkföllum 6. júní, að því er fram kemur í umfjöllun um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag.