Óstöðugur stöðugleiki Kaupþingsbréfa

Pétur Kristinn og verjandi hans Vífill Harðarson.
Pétur Kristinn og verjandi hans Vífill Harðarson. Árni Sæberg

Hvenær verður stöðugt gengi stöðugt gengi, því ljóst er að stöðugt gengi er ekki alltaf það sama og stöðugt gengi. Í raun er þessi heimspekilega spurning orðin að gildri spurningu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings þar sem menn hafa hingað til frekar kafað í tæknilegar lögskýringar eða tölulegar staðreyndir. 

Skilgreiningar sérstaks saksóknara og verjanda í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings eru allavega nokkuð ólíkar í þessu máli. Vífill Harðarson, verjandi Péturs Kristins Guðmarssonar, fv. starfsmanns eigin viðskipta bankans, hefur í dag notað talsverðan tíma til að benda á furðulega framsetningu saksóknara sem hann sagði vera til að villa fyrir og afvegaleiða dómara málsins.

Vísvitandi villandi framsetning

Verjendur málsins hafa síðustu daga gert fjölmargar athugasemdir við það hvernig mál saksóknara er sett fram í ákæru og einnig hvernig framburður vitna og gögn málsins hafi verið notuð vísvitandi á villandi hátt, eða gögn sem bendi til sakleysis hafi verið sleppt yfir höfuð.

Vífill gerði eitt þessara atriða að umtalsefni í dag, en hann benti á að í ákærunni sé rakið hvernig hlutabréfaverð Kaupþings hafi þróast á ákveðnu tímabili. Segir meðal annars að hlutabréfaverð bankans hafi  lækkaði hratt frá byrjun nóvember 2007 þegar það var 1090 kr á hlut og fram í miðjan febrúar 2008 þegar það var komið niður í 700 krónur á hlut. Á næstu mánuðum „tókst ákærðu í upphafi að hækka verðið aftur og síðan að halda því nokkuð stöðugu,“ með miklum hlutabréfakaupum.

Hvenær er stöðugleiki stöðugleiki?

Verjandi Péturs sagði þetta nokkuð merkilegt orðalag og sérstaklega þegar haft væri til hliðsjónar það sem á eftir kæmi. Í ákærunni er sagt að 12. júní 2008 hafi hlutabréfaverðið verið í 748 krónum og fram til loka september 2008 hafi ákærðu tekist með „miklum kaupum umfram sölu,“ þar sem heildarvelta var um 60-70%, „að halda verði hlutabréfa í Kaupþingi nokkuð stöðugu,“ en í lok viðskiptadags 26. september var verðið nánast það sama.

Verjandinn benti á að þegar þróun gengisins á þessu tímabili væri skoðað væri mjög ónákvæmt að nota orðið stöðugt til að lýsa aðstæðum, því verðið hafi farið upp í um 800 krónur, svo niður í um 720 krónur þar sem verðið sveiflaðist í smá tíma áður en það fór niður í um 675, áður en það tók sveiflu upp á við í september og náði hármarki rétt yfir 750 krónum.

Í lýsingu í ákæru á sænska markaðinum var einnig svipuð lýsing notuð, en miðað var við dagsetningarnar 23. júní til loka ágúst þar sem verðið var sagt hafa farið úr 56 krónum og haldist „nokkuð stöðugt“ og verið yfir 52 sænskum krónum þann 26. september. Verð bréfanna á þessu tímabili fór úr um 56 krónum, upp í 59 krónur, niður í 53 krónur og svo aftur niður í tæplega 49 krónur áður en það hækkaði aftur í rúmlega 52 krónur.

Mismunandi tímabil

Verjandi sagði þetta dæmi um furðulega framsetningu saksóknara í málinu og að með þessu væri verið að gefa villandi upplýsingar um að gengið hafi verið stöðugt og að ákærðu hafi haldið uppi ákveðnu verðgólfi. Rétt hafi verið að gengið sveiflaðist talsvert og engin leið var að halda því stöðugu. Bætti Vífill við að þá væri mjög einkennilegt að á sama tíma og saksóknari hafi valið þetta tímabil sérstaklega í ákærunni til að lýsa meintri markaðsmisnotkun hjá fyrirtæki sem væri skráð á markað bæði á Íslandi og í Svíþjóð væru mismunandi dagsetningar notaðar. Velti hann því fyrir sér hvort að saksóknari teldi að ákærðu hefðu verið með mismikla markaðsmisnotkun milli markaðanna.

Mikið um endurtekningar

Hvora hliðina dómari mun taka undir í rökstuðningi sínum þegar hann dæmir í málinu er ljóst að þetta mál hefur aðeins hrist upp í huga blaðamanns og mögulega fleiri í réttarsal, en síðustu dagar hafa verið nokkuð einsleitir þar sem mikið hefur verið um endurtekningar og flókin lagatæknileg atriði. Hafa nú þegar verjendur sjö af ákærðu farið í gegnu málflutning sinn, en flest málin skarast talsvert og ítrekanir samkvæmt því.

Vífill segir saksóknara vísvitandi beita villandi framsetningu.
Vífill segir saksóknara vísvitandi beita villandi framsetningu. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert