Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði stjórnarandstöðuna hafa sett ný met í málþófi og brotið flestar umgengnisvenjur og almenna kurteisi við upphaf þingfundar í morgun. Stjórnarandstæðingar hófu fundinn á að ræða fundarstjórn forseta. Þingfundur stóð til að ganga tvö í nótt.
Stjórnarandstaðan hefur verið sökuð um að halda uppi málþófi til að koma í veg fyrir að síðari umræðu um breytingar á rammaáætlun haldi áfram. Þingfundi var slitið kl. 1:15 í nótt og var umræðu um fundarstjórn forseta ítrekað skotið inn í umræðurnar um rammaáætlun eftir að hún komst loks á dagskrá síðdegis.
Málið er enn á dagskrá þingfundar sem hófst kl. 10 í morgun. Fundurinn hófst hins vegar á umræðum um fundarstjórn forseta. Þar héldu stjórnarandstæðingar áfram að krefjast þess að málið verði tekið af dagskrá. Rammaáætlun er þriðja mál á dagskrá fundarins á eftir óundirbúnum fyrirspurnartíma og sérstakri umræðu um markaðslausnir í sjávarútvegi.
Forsætisráðherra kom í pontu og sagði stjórnarandstöðuna hafa sett Íslandsmet í yfirstandandi málþófi með því að halda 783 ræður um fundarstjórn forseta við umræðuna. Sú nýja pólitík sem sumir stjórnarandstöðuflokkarnir hafi boðað væri farin fyrir lítið.
„Þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata eru með virkustu þátttakendum í þessu metmálþófi þannig að ekki aðeins reyndust þeir jafnslæmir og allir hinir, þeir reyndust verri,“ sagði Sigmundur Davíð sem hélt því fram að stjórnarandstaðan hafi brotið allar umgengnisvenjur og almenna kurteisi.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði stjórnarandstöðuna feta nýjar brautir með því að ræða fundarstjórn forseta jafnvel áður en þingfundur hæfist þar sem fyrsta málið á dagskrá væri hennar eigin tillaga um breytingar á dagskrá fundarins. Sagði hún orðið ógeðfellt hvernig stjórnarandstaðan stundaði sitt málþóf.