Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, telur skynsamlegra við núverandi aðstæður að reyna að finna niðurstöðu í kjaradeilunum sem gildir í skamman tíma heldur en að komast að efnahagslega óskynsamlegri niðurstöðu til lengri tíma.
Hann efast um að hægt sé að ná efnahagslega skynsamlegri niðurstöðu í yfirstandandi kjaraviðræðum. „Í þessum kjarasamningum, eins og öllum öðrum, takast á rökhyggja og tilfinninga um það sem mönnum finnst að sé réttlátt. Það er annars vegar hinn kaldi veruleiki efnahagslífsins og hins vegar hinar heitu tilfinningar um réttlæti. Þetta tvennt þarf að brúa og það hefur ekki verið gert af ýmsum ástæðum,“ sagði Þorsteinn á borgarafundi í Iðnó fyrr í dag.
Hópur fólks, sem tekið hefur sig saman undir kjörorðinu Aukum kaupmáttinn, stóð fyrir fundinum til að ræða meðal annars hvað deiluaðilar geti lært af sögunni.
„Hvernig getum við lært af sögunni?“ spurði Þorsteinn. „Með því að endurtaka ekki það sem við gerðum á áttunda og níunda áratungum. Með því fremur að líta okkur nær og reyna að endurnýja kjarasamninga eftir þeim leiðum sem við höfðum gert tvö undanfarin ár. Þær aðferðir hafa skilað árangri.
Við þurfum líka að læra af sögunni í víðara samhengi því við uppskerum ekki í kjarasamningum annað en hefur verið til og hinn efnahagslegi og pólitíski bakgrunnur okkar á hverjum tíma hlýtur að ráða miklu um möguleika þeirra sem í kjarasamningum standa, beggja megin við borðið, til þess að ná skynsamlegri niðurstöðu.“
Hann sagði að það væri eðlilega spurt hvort ekki væri skilningur á kröfum verkalýðsfélaganna. „Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að þau sjónarmið eru um margt skiljanleg. Ég held það sé almennur vilji til að bæta kjör þeirra sem minnst bera úr býtum. En það er líka mikill skilningur á þeirri kröfu háskólamanna að það eigi að meta menntun til launa.
Og þegar við síðan horfum á kröfur þessarar tveggja hópa og allra hinna þar á milli, og ef við ætlum að skrifa undir þær allar, náum við þá þeim markmiðum sem sett eru fram? Nei og ég hygg að það geri sér allir grein fyrir því að það að skrifa undir kröfurnar eins og þær liggja fyrir muni skilja alla eftir í verri stöðu. Enginn mun hafa færst nær þeim ábyrgu og skynsamlegu markmiðum sem menn hafa sett sér. Þetta er einfaldlega spurning um að velja réttar leiðir og að plægja þann akur sem kjarasamningar vaxa upp úr,“ sagði Þorsteinn enn fremur.
„Þegar læknar fóru af stað með sínar launakröfur fyrir ekki mörgum mánuðum byggðu þær á því eðlilega sjónarmiði að þeirra laun yrðu að vera samkeppnishæf við laun lækna í nágrannalöndunum. Vandinn er sá að við munum aldrei náð því marki ef þjóðarbúskapurinn er ekki samkeppnisfær. Það er hinn kaldi veruleiki efnahagslífsins. Við þurfum alltaf að brúa bilið með verðbólgu.“
Þorsteinn sagði framleiðni vera lykilinn að því að bæta lífskjör fólks hér á landi.
„Fyrir tveimur til þremur árum kom út mjög vönduð skýrsla, unnin af McKinsey, um þann alvarlega vanda í okkar þjóðarbúskap sem er lág framleiðni. Ekki lítil þjóðarframleiðsla, heldur lág framleiðni. Kostnaður við að búa verðmæti til er einfaldlega of mikill og við höfum þess vegna minna til skiptanna.
Það kom í ljós í þessari skýrslu að í þessum efnum stóðum við nær Grikkjum en Norðurlöndunum. Hvað var gert við þessa skýrslu? Það var búin til stór nefnd og henni var pakkað í silkipappír. Síðan kom ný ríkisstjórn sem batt rennihnút utan um þennan silkipappír.
Í Bretlandi er tekin við ný ríkisstjórn eftir kosningar. Fjármálráðherrann þar í landi tilkynnti það að samhliða fjárlagafrumvarpi sem hann ætlar að kynna á næstunni, þá myndi hann leggja fram áætlun um aukna framleiðni til þess að bæta kjör fólksins í landinu.
Við settum hins vegar skýrslu um þennan vanda ofan í skúffu og það virðast allir stjórnmálaflokkar í landinu vera sammála um það að hún eigi heima ofan í skúffu. Það er hluti af vandanum,“ sagði Þorsteinn.
Hann sagði einnig í erindi sínu að eftir kosningarnar árið 2009 hafi í fyrsta skipti í stjórnmálasögu landsins verið kjörin ríkisstjórn sem þurfti ekki að miðla málum yfir miðjuna. „Og við endurtókum þann leik í kosningunum 2013. Þetta hefur leitt til þess að það er ríkjandi pólitískt ójafnvægi í þjóðfélaginu og það eru ekki miklar líkur til þess að upp úr slíku pólitísku ástandi spretti kjarasamningar í efnahagslegu jafnvægi.“
Frétt mbl.is: „Ætlar einhver að bæta tjónið?“
Frétt mbl.is: „Það er traustið sem vantar“