„20 ára hugmynd loks að veruleika“

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. mbl.is/Árni

Stjórn allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins fagnar því að næsta haust muni nær allir framhaldsskólar landsins bjóða þriggja ára námsbraut til stúdentsprófs. Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar.

„Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sendi síðasta haust skýr fyrirmæli til stjórnenda framhaldsskólanna um að hefja undirbúning að styttingu náms til stúdentsprófs.Taldi hann að ferlið gæti tekið skólana mislangan tíma og því lagði hann ríka áherslu á að undirbúningsvinna yrði að hefjast þegar í stað. Skólastjórnendur brugðust vel við beiðni ráðherra og lögðu slíkan kraft í verkefnið að staða þess er nú langt umfram þær væntingar sem gerðar höfðu verið í upphafi. Næsta haust munu allir framhaldsskólar á landinu bjóða nám til stúdentsprófs á þremur árum, að tveimur skólum undanskildum,“ segir í ályktuninni.

Er vísað í síðustu landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins þar sem lagt var til að unnið yrði að styttingu náms til stúdentsprófs. „Það er ánægjulegt að sjá að strax í kjölfar nauðsynlegra samninga við Kennarasamband Íslands, sem gerðir voru vorið 2014, hafi þessari stefnu verið hrint í framkvæmd. Þess ber þó að geta að í mörg ár hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið sýnt áhuga og vilja til styttingu náms og eins fyrri menntamálaráðherrar.“

„Í öllum OECD löndum, að undanskildu Íslandi, tekur undirbúningsnám fyrir inngöngu í háskóla 12 - 13 ár, en hér á landi hefur það tekið 14 ár. Stytting námstímans flýtir fyrir því að nemendur geti tekist á við nám á háskólastigi, kostnaður nemenda og foreldra þeirra vegna skólagöngunnar verður minni og ungt fólk kemst fyrr út á vinnumarkaðinn. Einnig eru vonir bundnar við að stytting námstímans dragi úr brottfalli úr íslenskum framhaldsskólum. Hér er því um mikið hagsmunamál að ræða,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert