Hatursorðræða gegn Skagafirði

Bjarni Jónsson, fulltrúi VG og óháðra í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Bjarni Jónsson, fulltrúi VG og óháðra í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er grátbroslegt að verða vitni að þeirri hatursorðræðu sem beint er gegn íbúum Skagafjarðar, nú síðast þegar leiðtogi Pírata, Birgitta Jónsdóttir, útmálaði íbúa heils byggðar­lags sem glæpahyski þar sem spilling og rotin viðhorf ráði ferð,“ segir Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra í Sveitarfélaginu Skagafirði, í aðsendri grein í dag á fréttavefnum Feykir.is.

Tilefni skrifanna eru þau ummæli Birgittu á Facebook-síðu sinni á dögunum að Skagafjörður væri Sikiley Íslands. Ummæli hennar féllu í tengslum við umfjöllun á fréttavefnum Stundin um meinta spillingu í héraðinu sem sögð var tengjast ákvörðun stjórnvalda um að hætta umsóknarferlinu að Evrópusambandinu. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, gagnrýndi ummælin harðlega á vefsíðu sinni um síðustu helgi. Birgitta brást við á Facebook-síðu sinni og sagðist elska Skagafjörð. Hún sagðist að sama skapi elska Ísland þó landið væri Sikiley norðursins.

„Ummælin anga af hroka og hleypidómum og er væntanlega ætlað að skora nokkur prik fyrir þingmanninn hjá fólki sem nærist á fordómum og öfund gagnvart samfélagi sem þrátt fyrir allt vegnar vel. Nálgun Birgittu er af sama meiði og þegar alhæft er og ráðist að fólki vegna kynþáttar, húð­litar, kynhneigðar, trúarbragða eða lífsviðhorfa. Það eru til stjórnmálasamtök um allan heim sem nærast á slíku. Nú virðast íslenskir píratar ætla að troða þá slóð og afla sér vinsælda með því að níða niður einstök byggðarlög,“ segir ennfremur í grein Bjarna.

Spyr hann hvers vegna Skagfirðingar skyldu fara svona i taugarnar á Birgittu. „Er það af öfund yfir að við eigum bæði Álftagerðisbræður og Karlakórinn Heimi! Skyldi önnur ástæða vera sú að óvíða er að finna meiri andstöðu við inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Margt af því aumara sem sagt hefur verið um íbúa Skagafjarðar síðustu vikur hefur einmitt komið frá fólki sem er fullt örvæntingar og gremju yfir því að ESB-draumurinn heldur áfram að dofna út við hið ysta haf. Skagfirðingar munu standa með fullveldi þjóðarinnar.“

Fréttir mbl.is:

Óboðleg samlíking við mafíósa

Birgitta segist elska Skagafjörð

Tek­ur upp hansk­ann fyr­ir Skaga­fjörð

Seg­ir Skaga­fjörð „Sikiley Íslands“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert