Hver þingmaður stjórnarandstöðunnar á fætur öðrum hefur stigið í pontu frá því í morgun til að ræða fundarstjórn forseta, en minnihlutinn hefur beitt málþófi til að koma í veg fyrir að síðari umræða um rammaáætlun haldi áfram. Formaður atvinnuveganefndar þingsins er sakaður um að halda þinginu í gíslingu.
Við upphaf þingfundar klukkan 10 í morgun, lögðu þingmenn stjórnarandstöðunnar til að dagskrá þingfundar yrði breytt og að umræða um rammann yrði tekin af dagskrá. Vill minnihlutinn ræða brýnni mál, þá sérstaklega alvarlega stöðu á vinnumarkaði. Svo fór að tillagan var felld með 30 atkvæðum gegn 19.
Síðan þá hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar rætt fundarstjórn forseta til að gagnrýna stjórnarmeirihlutann fyrir að vilja ekki ná sáttum í málinu og forðast að ræða þá stöðu sem kjaraviðræður séu komnar í. Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG, segir ljóst að ríkisstjórnin hafi engar lausnir og þar af leiðandi vilji hún ekki taka umræðuna. Það sé pínlegt.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði nauðsynlegt að ræða alvarlega stöðu á vinnumarkaði enda blasti við að fjölmennsta verkfall Íslandssögunnar væri við það að bresta á.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að minnihlutinn hefði með ofangreindri tillögu um breytta dagskrá verið að rétta stjórnvöldum björgunarhring og þarna gæfist þeim kostur til að finna sáttaleið.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, sagði að aðstæður í samfélaginu væru án fordæma en að Alþingi hefði möguleika á því aði stilla til friðar og ganga á undan með góðu fordæmi.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að „friðardúfurnar“, sem hann kallaði minnihlutann á Alþingi, hefðu í dag hafið enn einn daginn á grímulausu málþófi.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að samfélagið væri að sigla inni í upplausnastand og að ríkisstjórnin væri ekki hæf til að stjórna landinu.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagði að minnihlutinn hefði aðferðir til að stöðva mál. „Við munum gera það en viljum ekki gera það með þessum hætti.“
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, segist ekkert botna í því hvers vegna skynsemisöfl í stjórnarmeirihlutanum skuli ekki taka í taumana, en hann setti svo spurningarmerki við það hvort einhverja skynsemi væri þar að finna.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði að þingið héldi áfram á villubraut. Hún sagði að það væri Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sem stýrði þinginu traustri hendi.
„Maður bíður bara eftir því að það verði tilkynnt um ráðherraskipti, það hlýtur að vera eitthvað í pípunum fyrst að sá háttvirtur þingmaður hefur svo gífurleg tök á þinginu. Hann er með hreðjatök á þessu þingi, það er nú bara þannig,“ sagði hún.
Umræður um störf þingsins, sem áttu að hefjst klukkan 10 í morgun, hófust loks klukkan 11:30.