Íslendingar munu ekki geta látið sitt eftir liggja við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum jafnvel þó að þeir losi minna en margar aðrar þjóðir. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, á fundi Landsvirkjunar um loftslagsbreytingar í morgun.
Umhverfisráðherra sagði í erindi sínu að allar þjóðir heims, hvort sem þær væru ríkar eða snauðar eða hefðu losað mikið eða lítið, muni þurfa að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hið sama gilti um Íslendinga jafnvel þó að þeir stæðu aðeins fyrir um 0,01% af losun á heimsvísu.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru líklega stærsta vandamálið sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir nú og á næstu áratugum. Draga þarf hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun til þess að forðast verstu afleiðingar hennar. Yfirborð sjávar hækkar með tilheyrandi hættu fyrir strandríki og tíðari sjávarflóðum, líkurnar á aftakaverði aukast og lífsskilyrði í sjó breytast vegna súrnunar sjávar.
Ríki heims munu freista þess að ná samkomulagi um að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í París í desember. Umhverfisráðherra sagði samninganefnd sex ráðuneyta hafi verið falið að móta tillögur um framlag Íslendinga og sagðist hann vonast til þess að þeim verði skilað fljótlega. Ísland myndi styðja samkomulag í París.
Sigrún sagði að vegna endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi þyrftum við að leita annarra leiða til að draga úr losun. Knýja þyrfti skip og bíla með rafmagni og metani, spara þyrfti orku og auka uppgræðslu skóga og jarðvegs.
Nefndi hún orð forsætisráðherra á loftslagsráðstefnu sem Ban Ki-moon, aðalritari SÞ, boðaði til í fyrra um að Íslandi yrði kolefnislaust hagkerfi. Til þess þyrfti að hætta að nota jarðolíu í samgöngum. Sagði hún mikilvægt að setja fram slík markmið til að hvetja okkur til dáða.
Auk ráðherra tóku til máls Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Björnsson, loftslagssérfræðingur hjá Veðurstofunni, og Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Hörður sagði að frá því að Landsvirkjun var stofnuð fyrir fimmtíu árum hafi fyrirtækið unnið um 250 terawattstundir af raforku. Hefði sú orka verið unnin með kolum hefði þurft að brenna um 63 milljónum tonna af þeim.
Landsvirkjun vilji gera sitt ýtrasta í loftslagsmálum og fyrirtækið muni leggja fram áætlun á þessu ári um hvernig hægt verði að ná því markmiði þess að jafna út kolefnisfótspor sitt. Vegna þeirra endurnýjanlegu orkugjafa sem Íslendingar ráða yfir hafi þeir tækifæri til að gera hlutfallslega meira en nokkrir aðrir einstaklingar í heiminum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.