Jóhanni Haukssyni sagt upp hjá DV

Jóhanni Haukssyni var sagt upp störfum hjá DV í gær.
Jóhanni Haukssyni var sagt upp störfum hjá DV í gær. Ljósmynd/Frikki

Blaðamanninum Jóhanni Haukssyni var sagt upp störfum hjá DV í gær. Eggert Skúlason, ritstjóri DV, staðfesti þetta í samtali við mbl.is og segir uppsögnina vera lið í hagræðingaraðgerðum. Kjarninn greindi fyrstur miðla frá uppsögninni.

„Þetta er vonandi síðasta skrefið. Við höfum verið að vanda okkur á öllum sviðum og það er alveg ljóst að reksturinn gengur nú mikið betur en um áramót. Það sjá það allir þegar þeir fletta blaðinu eða skoða vefinn að við erum að selja mun meira af auglýsingum og áskriftarátakið tókst vel,“ segir Eggert og bendir á að nokkrir blaðamenn hafi hætt hjá DV eftir eigendaskiptin en engum hafi þá verið sagt upp.

Hann segir uppsögnina vera í þannig sátt sem hægt er að gera í málum sem þessum, en að það sé alltaf leiðinlegt þegar gripið sé til uppsagna.

Aðspurður hvort uppsögnin hafi eitthvað með pólitík eða ósætti á ritstjórninni að gera segir Eggert svo alls ekki vera. „Jesús minn, nei. Þetta er leiðinlegt, en því miður þurfum við að hagræða. Launakostnaður er stór liður í rekstri allra fyrirtækja.“

Hann segist ekki sjá það fyrir sér að ráðið verði inn nýjan blaðamann í stað Jóhanns. „Ég sé það ekki fyrir mér. Við erum náttúrulega að detta í sumarafleysingar og það er búið að ganga frá því. En svo er þessi heimur svo fljótur að breytast, maður segir eitt í dag en stendur frammi fyrir öðru á morgun. En það er ekki hugmyndin á þessum tímapunkti,“ segir hann. 

Eggert Skúlason, ritstjóri DV.
Eggert Skúlason, ritstjóri DV. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert