Liðsheildin skiptir sköpum

Páll Bragi Hólmarsson ásamt dóttur sinni, Elínu Þórdísi, og stóðhestinum …
Páll Bragi Hólmarsson ásamt dóttur sinni, Elínu Þórdísi, og stóðhestinum Álvari frá Hrygg. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta er mikill heiður og ég er mjög þakklátur fyrir að mér skuli hafa verið falið þetta hlutverk. Það er mér hjartans mál að þetta gangi vel,“ segir Páll Bragi Hólmarsson, einvaldur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum, sem keppir á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Herning 3.-6. ágúst í sumar.

Þetta er í fyrsta skipti sem Páll Bragi stýrir liðinu á heimsmeistaramóti en hann hefur verið liðsstjóri íslenska landsliðsins á tveimur Norðurlandamótum. Þá hefur hann verið liðsstjóri og þjálfari finnska landsliðsins í nokkur ár.

Byggt upp búið Austurkot

Páll Bragi er búsettur í Austurkoti í Árborg þar sem hann hefur byggt upp hrossaræktarbú og tamningastöð ásamt konu sinni Hugrúnu Jóhannsdóttur. Þau hafa bæði verið í landsliðinu.

Liðsheildin er það sem Páll Bragi ætlar að leggja áherslu á í starfinu. Hann segir það mjög mikilvægt svo unnt sé að ná góðum árangri en hann er mjög bjartsýnn á gott gengi enda verði liðið skipað toppfólki.

Í nýjum svokölluðum lykli á vali á liðinu, sem kynnt var nýverið, eru ekki miklar breytingar milli ára en þær varða helst einkunnalágmörk.

Þá verður gerður ítarlegri samningur milli keppenda, liðsstjóra og landsliðsnefndar. „Í honum eru útlistaðar nákvæmar en áður skyldur okkar við keppendur og einnig þeirra gagnvart okkur, t.d. er tekið hart á agabrotum,“ segir Páll Bragi.

Í heild verður íslenska landsliðið skipað 21 knapa en þrír af þeim verja heimsmeistaratitil sinn frá síðasta móti sem haldið var í Berlín. Sjö keppendur eru í fullorðinsflokki, fimm ungmenni á aldrinum 18-21 árs auk sex knapa á kynbótahrossum.

„Við ætlum að hlúa betur að kynbótahrossunum en hefur verið. Jafnmikill metnaður verður lagður í þau og sporthestana,“ segir Páll Bragi og bætir við að þrír þjálfarar verði með í för og muni einn þeirra sjá um kynbótahlutann, einn um ungmennin og einn um fullorðna, en allir myndi þeir eitt teymi með honum.

Keppt verður í tölti, fjórgangi, fimmgangi, gæðingaskeiði, 250 metra skeiði og 100 metra skeiði. Úrtaka fyrir landsliðið fer fram 10.-14. júní en endanlegt val verður líklega tilkynnt um miðjan júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka