„Það tapa allir á þessu“

Gray Line flytur um þúsund manns á dag. Mynd úr …
Gray Line flytur um þúsund manns á dag. Mynd úr safni. Morgunblaðið/Kristinn

Ferðaskrifstofan Gray Line þarf að fella niður allar ferðir sínar ef hópferðabílstjórar fara í fyrirhugað verkfall 28. og 29. maí. Þar á meðal eru allar ferðir fyrirtækisins til flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, á Gullna hringinn, Bláa lónið, Snæfellsnes og víðar. Verkfall hópferðabílstjóra er hluti af aðgerðum VR, Flóabandalagsins og LÍV en félögin standa nú í kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins. Ef ekki næst að semja hefst allsherjarverkfall hjá meðlimum félaganna 6. júní. 

„Það er alveg ljóst að þetta verkfall mun hafa mikil áhrif um allt land og á  þjónustu okkar við okkar gesti. Nú þegar er svolítið um það að hópar hafa verið að afbóka ferð sína til Íslands og það sem verra er þá er líka tregða hjá hópum sem ætla að koma síðar á árinu til landsins að staðfesta bókanir,“ segir Þórir Garðars­son, sölu- og markaðsstjóri Gray Line í samtali við mbl.is.

Gæti haft áhrif fram á næsta ár

Hann segir að staðsetning Íslands hafi áhrif á ákvarðanir ferðamannanna. „Það vill enginn vera innilokaður á Íslandi hér norður í ballarhafi þó það sé náttúrulega fjarlægur veruleiki að verkfallið geti dregist í langan tíma. En við eru minnugir þess að verkfall bílstjóra árið 2000 stóð í sex vikur. Það hafði gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna allt árið á eftir. Við erum með áhyggjur af því að það sama gæti verið uppi á teningnum í dag,“ segir Þórir. 

Að sögn Þóris munu allar rútuferðir falla niður þessa daga nema þær sem keyrðar eru af ökuleiðsögumönnum en ekki er vitað hversu margar þær eru. Þeir eru undir kjarasamningum félags leiðsögumanna og fara því ekki í verkfall. Gray Line er ekki farið að kortleggja hversu margar ferðir þeir gætu mögulega tekið. „Við erum svo bjartsýnir og vonum að menn hafi þá gæfu að ljúka samningum áður en svona alvarlegir hlutir gerast,“ segir Þórir. 

Alvarleg aðför að ferðaþjónustunni

Þórir telur að aðgerðirnar munu hafa alvarleg áhrif á þjóðina. „Ég held að það sé óhætt að fullyrða það að þetta er alvarlegasta aðför að ferðaþjónustunni um áratuga skeið. Skaðinn sem verður er gríðarlegur, ekki síst fyrir þjóðarbúið sjálft. Núna er ferðabransinn að ná hámarki en vandamálið er að þau viðskipti sem við missum af út af þessum aðgerðum koma ekkert aftur. Þetta er þorskur sem synir hjá. Við getum ekki frestað framleiðslunni, hún á sér stað í núinu.“

Þórir vonar að samningar náist í deilunni sem fyrst. „Þó svo að skaðinn sé orðinn mikill í dag getur hann orðið ennþá verri ef þetta verður að veruleika. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og vona að menn fari að klára þetta. Það tapa allir á þessu.“

Upp undir 60.000 manns taka þátt í verkfallsaðgerðum VR, Flóabandalagsins …
Upp undir 60.000 manns taka þátt í verkfallsaðgerðum VR, Flóabandalagsins og LÍV. Ef ekki næst að semja hefjast þær eftir sex daga.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert