Verkfall hjúkrunarfræðinga hefst að öllu óbreyttu á miðvikudaginn þegar 2100 hjúkrunarfræðingar leggja niður störf. Síðasti fundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins var á fimmtudag og boðað hefur verið til fundar klukkan þrjú á morgun. „Þetta verður þannig að það eru ákveðið margir hjúkrunarfræðingar sem mega vera í vinnu á hverjum tíma og hinir eru settir til hliðar og eru til taks ef það koma upp veikindi eða slíkt,“ sagði Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur, í samtali við mbl.is.
„Í slíkum tilvikum þarf yfirmaður að biðja um undanþágu. Ég hefði átt að vinna á fimmtudag og föstudag en verð í staðinn á verkfallsvakt, verð til taks ef það þarf að kalla mig inn.“ Hjúkrunarfræðingar eru í raun á bakvakt á meðan verkfallsaðgerðum stendur.
Eins og flestir vita hefur ástandið á spítalanum verið erfitt í vetur. Fyrst fóru læknar í verkfall og nú eru meðlimir BHM í verkfalli og allt stefnir í að hjúkrunarfræðingar fari líka í verkfall. „Ástandið hefur ekki verið gott. Yfir 6000 sýni eru geymd í frysti, eftir því sem þau eru lengur í geymslu er erfiðara að vinna úr þeim og eru nokkur hundruð sýni talin vera útrunnin. Þá þarf að taka þær prufur aftur.“ Búið er að fresta 54.500 blóðtökum vegna verkfalla BHM, blóðsýni hafa skemmst, 6.100 myndgreiningarrannsóknum hefur verið frestað, 370 skurðaðgerðum og 1.700 komum á dag- og göngudeildir.
Helga segir að þessar aðgerðir séu ekki eitthvað sem hjúkrunarfræðingar vilji gera. „Það vill enginn hjúkrunarfræðingur fara í verkfall og það verður alls ekki auðvelt. Þetta verður aukið álag og við hugsum fyrst og fremst um hag sjúklinga. Við viljum náttúrulega ná að sinna öllum með þeirri þjónustu sem á að vera hægt að bjóða fólki upp á. Við viljum að fólk geti komið og gengið að þjónustunni og sé ekki að bíða með að leita til okkar út af verkfalli.“ Þetta sé því staða sem enginn vilji lenda í.
Hvernig verður launagreiðslum háttað á meðan verkfalli stendur? „Við fáum borgað frá verkfallssjóði þá daga sem við eigum að vera í vinnu og erum í verkfalli. Þá fáum við aðeins lítinn hluta, mig minnir að hámarkið séu 12 þúsund krónur á dag.“
Hjúkrunarfræðingar vilja hærri laun og finnst þau biðja um sanngjarna hækkun. „Já, okkur finnst við vera með hógværar kröfur. Erum bara að biðja um að dagvinnutaxtinn sé hækkaður til þess að maður geti haft þann möguleika að vinna í dagvinnu og geti séð fyrir sér á dagvinnulaunum eingöngu. Annars þurfum við að vinna aðra hvora eða þriðju hvora helgi og ákveðið margar kvöldvaktir. Síðan eru einhverjir sem biðja um að taka mikið af næturvöktum til að hækka launin.“ Allar rannsóknir sýni að maður sofi verr og borði lítið þegar unnið er á næturvöktum, fólk sofi um daginn og nærist líka illa þá og sofi illa. „Þetta fer ekki vel með mann. Fyrir utan að maður er auðvitað bara að missa af deginum. Tökum sem dæmi tólf tíma næturvakt frá 20 - 8, tvo daga í röð. Þá gerir maður lítið annað en að sofa og vinna.“
Helga vonar að það náist að semja svo ekki komi til verkfalls. „Þetta bitnar líka á okkur og við viljum ekki fara í verkfall. Vonandi semst fyrir þann tíma en þetta styttist og ég er ekki bjartsýn.“ Hún segir fólk innan spítalans styðja hjúkrunarfræðinga. „Hjúkrunarfræðingar eru stærsti hluti spítalans og auðvitað hefur það áhrif þegar svona stór stétt fer í verkfall. Allir vilja að þetta leysist. Við erum ekki að biðja um mikla hækkun, eingöngu 14 - 25%.“
Henni finnst námið ekki metið til launa. „Þetta er fjögurra ára háskólanám til BS gráðu og miðað við sambærileg nám á þessu háskólastigi erum við svolítið langt undir í launum, verandi kvennastétt, og þetta þarf að leiðrétta. Þegar ég byrjaði í náminu var alltaf talað um að þetta væri illa borgað en ég hélt að þegar ég myndi útskrifast væri búið að laga þetta. Þetta er algjörlega síðasta úrræðið, að fara í verkfall. Við vitum að þetta verður erfitt.“