Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að jákvæðni og bjartsýni hefði átt undir högg að sækja hér á landi að undanförnu.
Fleiri mættu temja sér jákvæðni í hugsun, ærin ástæða væri til.
Hann sagði meðal annars að þegar bent væri á að Íslandi væri lægsta hlutfall fátæktar í Evrópu, þá væri ekki verið að horfa fram hjá því að hér væri vissulega fáækt. Tölurnar sýndu okkur hins vegar að við gætum gert enn betur. Fátækt væri ekkert lögmál og hægt væri að stefna að samfélagi þar sem enginn býr við fátækt.
Að sama skapi væri ekki verið að líta fram hjá þeim lægst launuðu í landinu þegar talað er um aukinn jöfnuð á Íslandi. Þar gætum við náð enn betri árangri.
Sigmundur Davíð benti einnig á lista Sameinuðu þjóðanna yfir hamingjusömustu þjóðir heims, en samkvæmt listanum er Ísland sú næsthamingjusamasta í heimi. „Þegar að er gáð snýst listinn ekki um hversu hamingjusamar þjóðir eru, heldur er þetta mat á tilefni til þess að vera hamingjusöm. Það væri óeðlilegt að líta fram hjá þessu,“ sagði forsætisráðherra. Við ættum að vera þakklát, þó svo að við gætum gert enn betur.
Hann benti á ýmsar hagstærðir og sagði að undanfarin tvö ár hefðu laun hækkað á Íslandi mun meira en verðlag, kaupmáttur aukist meira en nokkurs staðar í Evrópu og að ekkert land hefði náð meiri kjarabótum en Ísland.
Þá hefðu aldrei fleiri verið við vinnu á Íslandi en nú og atvinnuleysi hér með því minnsta í Evropu. Eins hefðu fjárfestingar aukist hratt á seinustu tveimur árum eftir að hafa náð lægsta stigi frá millistríðsárunum.
Sigmundur sagði einnig að niðurskurði til velferðarmála hefði verið snúið „rækilega“ við. Íslenska ríkið væri samt sem áður hætt að safna skuldum og væri nú rekið með afgangi, ólíkt flestum ríkjum Evrópusambandsins.
„Skuldir íslenskra heimila hafa lækkað hraðar en í nokkru samanburðarlandanna, sérstaklega með skuldaleiðréttingunni. Aðgerðir í skuldamálum munu skila auknum ráðstöfunartekjum áratugi fram í tímann,“ sagði forsætisráðherra.
Loks benti hann á að ríkið hefði aldrei haft meiri arð af auðlindum þjóðarinnar en nú. Í flestum samanburðarlöndum væri sjávarútvegur jafnframt ríkisstyrkt atvinnugrein, en hér á landi væri greinin sjálfbær og arðbær. „Slíkt er fáheyrt.“
Allt benti til þess að lífsgæði á Íslandi gætu haldið áfram að aukast.