Skattahækkanir koma til greina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að það kæmi til greina að hækka skatta ef samið yrði um launahækkanir í kjaraviðræðum sem ógna stöðugleika.

Skattahækkanir væru vopn til að bregðast við aukinni þenslu og verðbólgu.

„Ég er ekki að boða þetta. Ég er bara að segja að ef við horfum fram á verulega verðbólgu, þá mun auðvitað þurfa að bæta kjör örykja og auka bætur í samræmi við verðlagsþróun,“ sagði hann.

„Ef verðbólga fer af stað, þá felur það í sér aukinn kostnað hjá ríkinu í mörgum stórum málum, eins og í almannatryggingakerfinu, sem þýðir einfaldlega að ríkið þarf meiri tekjur.“

Ríkið þyrfti jafnframt að hafa hamlandi áhrif á verðbólgu, en ekki ýta frekar undir hana.

Hann ítrekaði að hann væri ekki að boða skattahækkanir, þetta væri aðeins ein leið sem hefði verið litið til í gegnum árin til að bregðast við þenslu.

„Ég er ekki að boða þetta og ég vona svo sannarlega að það verði samið á þann hátt að aðkoma ríkisins geti falist í því að auka enn ráðstöfunartekjur og auka enn kaupmáttinn, en ein af fáum leiðum sem stjórnvöld hafa til að bregðast við þenslu í efnahagslífinu eru skattahækkanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka