Ekkert þokaðist í samningsátt á fundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefnd ríkisins í dag. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður og stefnir allt í að verkfall hjúkrunarfræðinga hefjist annað kvöld.
„Það hefði mátt ganga betur á fundinum, hann var aðeins 45 mínútur og við þokuðumst ekki nær samkomulagsátt,“ sagði Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is. „Við ræddum ýmis efni kröfugerðarinnar og almenn efni en fengum enga niðurstöðu.“Hann segir ríkið ekkert hafa komið til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga um 14 - 25% hækkun á dagvinnutöxtum. „Nei, það er ennþá langt á milli aðila.“
Félagið gaf út yfirlýsingu eftir ummæli forsætisráðherra í gær þar sem hjúkrunarfræðingar undrast orð hans og töldu að vegið væri að samningarétti opinberra starfsmanna. „Við ræddum þetta við samninganefnd ríkisins og fengum fullnægjandi svör við því að þeir hefðu alveg fullt umboð fjármálaráðherra og tökum þau svör gild.“
En er efi um vilja ríkisins til að semja? „Það virðist ekki vera mikill samningsvilji þó svo að þeir hafi samningsumboð þannig að öllu óbreyttu erum við nær því að fara í verkfall núna en fyrir fundinn.“
Ólafur sagði hjúkrunarfræðinga búa sig undir verkfall. „Nú förum við bara í lokaundirbúning verkfalls sem hefst annað kvöld. Það mun skapast mjög alvarlegt ástand í heilbrigðiskerfinu, fordæmalaust, ef hjúkrunarfræðingar fara í verkfall."