Undrast orð forsætisráðherra

Boðað hefur verið til fundar í dag í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga …
Boðað hefur verið til fundar í dag í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sést hér fremstur á myndinni. mbl.is/Golli

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að svo virðist sem að ríkisstjórnin hafi ákveðið að semja ekki við opinbera starfsmenn fyrr en samið hafi verið á almenna markaðinum. Félagið furðar sig á ummælum forsætisráðherra og telur að vegið sé að samningsrétti opinberra starfsmanna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið hefur sent frá sér í gærkvöldi. Hún er svohljóðandi:

„Miðað við yfirlýsingu háttvirts forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum Stöðvar tvö í kvöld er ljóst að ekki verður samið við hjúkrunarfræðinga í bráð. Hjúkrunarfræðingar vonast til að samið verði áður en til verkfalls kemur en svo virðist sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ekki verði samið við opinbera starfsmenn fyrr en samið hefur verið við almenna markaðinn. Telur Fíh að þar sé vegið að samningsrétti opinberra starfsmanna.

Það er vægast sagt sérkennilegt að í kjarabaráttu að annar samningsaðilinn búi yfir því afli að geta sett lög á hinn samningsaðilann sem gerir sjálfsagt og eðlilegt verkfallsvopn að engu. Fíh telur að komi til lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga muni það einungis valda úlfúð og ekki til þess fallandi að leysa málin á farsælan hátt fyrir báða aðila.

Það er von Fíh að á samningafundi á morgun komi raunhæft tilboð frá viðsemjendum okkar sem miðar að því að laun hjúkrunarfræðinga verði sambærileg og laun annarra háskólamenntaðra og taki ákveðið skref í að jafna launamun kynjanna hjá hinu opinbera.“

Þá hefur Bandalag háskólamanna sömuleiðis sent frá sér yfirlýsingu sem er eftirfarandi:

„BHM lýsir furðu  vegna ummæla forsætisráðherra í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar lýsti hann því yfir að ekki yrði samið við ríkisstarfsmenn fyrr en að loknum samningum á almennum vinnumarkaði. Með framgöngu sinni dregur ráðherrann  samningsrétt  ríkisstarfsmanna í efa.

Kjaraviðræður BHM við ríkið eru á mjög viðkvæmu stigi. Boðað hafði verið til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á morgun.  Í ljósi ummælanna dregur BHM samningsvilja ríkisins í efa.

Samninganefnd BHM hefur verið boðuð til fundar í hádeginu á morgun til að ræða stöðuna í framhaldi af ummælum forsætisráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert