„Ég held að vandi okkar við að ná hér saman eða komast eitthvað áfram með störf þingsins holdgerist í tveimur mönnum umfram aðra. Það er að segja hæstvirtum forsætisráðherra, sem veður hér um eins og krakki með bensínbrúsa og eldspýtur og kveikir elda út um allt, og síðan formanni atvinnuveganefndar.“
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar komu upp í ræðustól þingsins hver á eftir öðrum og fluttu tæplega þrjátíu efnislega áþekkar ræður þar sem gagnrýnt var að rammaáætlun væri áfram á dagskrá þingsins, að hvítasunnuhelgin hefði ekki verið nýtt til þess að semja við stjórnarandstöðuna um þinglok og að stjórnvöld væru ekkert að gera til þess að leysa úr yfirstandandi kjaradeilum. Steingrímur sagði að tryggja þyrfti að hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra né Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, kæmu nálægt samningum um þinglok.
„Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að við skulum koma hér saman eftir þriggja daga helgi og það hafi ekkert gerst í því máli sem staðið hefur fast í þinginu í tvær vikur. Menn hafa lýst áhuga á því að setjast saman niður og freista þess að finna einhvern sameiginlegan flöt, en áhuginn á ófriðnum er öllu öðru yfirsterkara hjá stjórnarmeirihlutanum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, í umræðunni. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, var á meðal þeirra sem tóku undir þetta.
„Ég er formaður í stjórnmálaflokki hér á þingi og nú höfum við orðið vitni að því að hér er búið að vera upplausnarástand í tvær vikur sem gerir engum gott. Ég hef ekki verið boðaður á einn fund með formönnum stjórnmálaflokka til þess svo mikið sem ræða þetta ástand, ekki bara ástandið hér, heldur ástandið í þjóðfélaginu. Oft hafa nú vera haldnir fundir bara til samráðs af minna tilefni. Þetta er orðið mér ráðgáta.“