Til stendur að hefja endurbætur í sumar á átta kílómetra vegarkafla frá Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum suður og austur fyrir Gjábakka.
Mikilla úrbóta er þörf á veginum til að auka öryggi, en skoðanir Vegagerðar og þjóðgarðsvarðar eru ólíkar um leiðir að markmiðunum og hvernig standa eigi að þeim, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ólafi Erni Haraldssyni, þjóðgarðsverði, finnst að öryggiskröfur Vegagerðarinnar um gerð vegaxla og öryggissvæðis spilli náttúrufari meðfram veginum. Það er hins vegar skylda Vegagerðarinnar að hafa öryggi vegfarenda í fyrirrúmi.