Píratar halda enn sjó

Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn …
Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata. mbl.is

Enn mælast Píratar með mest fylgi allra flokka á Íslandi, nú í könnun MMR. Flokkurinn mælist nú með 32,7% fylgi sem er 0,7% meira en í síðustu könnun. Stuðningur við ríkisstjórnina þokast örlítið uppávið og mælist nú 31,4%. Fylgisaukning Pírata virðist mest á kostnað Bjartrar framtíðar og Framsóknarflokks.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur næstmests fylgis í könnuninni en 23,1% svarenda lýsa stuðningi við hann borið saman við 21,9% í síðustu könnun MMR. Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn í könnunni, nú með 13,1% borið saman við 10,7% í síðustu könnun. VG mælist með 10,4%, Framsóknarflokkurinn með 8,6% og Björt framtíð 6,3%.

Píratar laða til sín fylgi frá öllum flokkum frá síðustu kosningum. Þannig sögðust 52,5% þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum nú styðja Pírata, 32,4% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn styðja nú Pírata, 23,3% þeirra sem kusu Vinstri græn styðja nú Pírata, 18,7% þeirra sem kusu Samfylkinguna styðja nú Pírata og 14,9% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn styðja Pírata í dag.

Karlar voru líklegri en konur til að styðja Pírata en konur voru hinsvegar líklegri en karlar til að styðja Vinstri græn og Bjarta framtíð. Þannig sögðust 37,4% karla styðja Pírata, borið saman við 26,3% kvenna. 16,5% kvenna sögðust styðja Vinstri græn, borið saman við 5,9% karla og 10,5% kvenna sögðust styðja Bjarta framtíð, borið saman við 3,2% karla.

Yngra fólk var líklegra til að styðja Pírata en eldra fólk, hinsvegar var eldra fólk líklegra til að styðja Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna en yngra fólk.

Könnunin var gerð dagana 15.-20. maí og var heildarfjöldi svarenda 932, 18 ára og eldri.

Könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert