Rífa niður kerfið og byggja nýtt

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Eggert

Krafa mótmæla sem boðuð hafa verið á Austurvelli kl. 17 í dag er að ríkisstjórnin fari frá vegna fjölda mála sem vekja óánægju og reiði fólks. Sara Elísa Þórðardóttir, skipuleggjandi þeirra, segir að rífa þurfi núverandi stjórnkerfi niður frá grunni og byggja nýtt. Á sjöunda þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmælin.

Á Facebook-síðu mótmælanna sem nefnist „Bylting! Uppreisn!“ hafa þátttakendur talið upp um hundrað ástæður fyrir því að núverandi ríkisstjórn sé vanhæf og þurfi að fara frá völdum. Þar á meðal eru spilling, makrílfrumvarpið, siðblinda og launaójöfnuður. Félagar í Bandalagi háskólamanna (BHM) sem hafa verið í verkfalli undanfarnar vikur hafa meðal annars boðað komu sína.

Sara segir að þó að krafa mótmælanna sé sú að ríkisstjórnin fari frá þá snúist þau um mun fleiri atriði. Þar á meðal séu lýðræðisumbætur og aukið gegnsæi þar sem kerfið sjálft sé meingallað og ali á spillingu.

„Það eru mýmörg atriði í stjórnkerfinu sem gera það nánast ómögulegt fyrir nokkurn að hafa nein áhrif nema þá sem kalla sig ríkisstjórnina. Það er ekki hlustað á raddir almennings. Þvert á móti er gefið í skyn að það sé skynjunarvillur þegar staðreyndin er sú að fólk nær ekki endum saman, fólk flytur til útlanda af því að það er búið að gefast upp á kerfinu. Misskipting er að aukast. Heilbrigðiskerfið er svo langt frá því sem það gæti verið og almannatryggingakerfið. Draumurinn væri sá að búa í landi þar sem að maður væri ekki hræddur við að veikjast, eldast eða mennta sig og vera þar af leiðandi í skuldafangelsi það sem eftir væri,“ segir Sara.

Mótmælin hefjast kl. 17 en ræðumenn verða þau Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson. Tónlistarmennirnir KK, Valdimar og Jónína Björg Magnúsdóttir munu einnig koma fram á mótmælunum. Dagskráin stendur yfir til kl. 18.

„Þó að það sé ekki raunsætt að ríkisstjórnin fari frá í dag eða á morgun þá held ég að það væri betra til þess að geta hafið uppbyggingu á þessu meingallaða kerfi sem við búum við og höfum búið við í langan tíma,“ segir Sara.

Facebook-síða mótmælanna

Vefmyndavél Mílu af Austurvelli

Á sjöunda þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli …
Á sjöunda þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli kl. 17. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert