Styrkir Airwaves um níu milljónir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sá sem er í leðurbuxum, og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sá sem er í leðurbuxum, og Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, undirrituðu samninginn í dag í setri skapandi greina við Hlemm.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, klæddur í forláta leðurbuxur, og Grímur Atlason, framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, skrifuðu undir samning í dag um styrk Reykjavíkurborgar til hátíðarinnar. Styrkur borgarinnar nemur 9 milljónum króna í ár.

Fram kemur í tilkynningu, að meginmarkmið með stuðningi Reykjavíkurborgar við Iceland Airwaves sé að efla jákvæða ímynd íslenskrar tónlistar jafnt innanlands sem utan, vekja athygli á Reykjavík sem tónlistarborg, koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri við erlenda aðila og í erlendum fjölmiðlum og tryggja samfellu og framþróun í árvissri hátíð sem laði að sér gesti til borgarinnar utan hefðbundins ferðamannatíma

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefur verið haldin í miðborg Reykjavíkur frá árinu 2000 og hefur vaxið smám saman í þekkta alþjóðlega tónlistarhátíð. Hátíðin hefur reynst vera stökkpallur fyrir fjölmargar íslenskar hljómsveitir sem sækja á erlenda markaði. Auk þess er hátíði góð landkynning fyrir Reykjavík og hefur skilað aukningu ferðamanna sem nefna tónlst sem eina af ástæðum ferðalags til Íslands, segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert