Undirstrikar mikilvægi ferðaþjónustu

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF, Samtök um ferðaþjónustu
Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF, Samtök um ferðaþjónustu Kristinn Ingvarsson

Ákvörðun stjórnvalda um að setja 850 milljónir í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum víðsvegar um landið er fyrsta skrefið í nauðsynlega átt og Samtök ferðaþjónustu fagna þessu framtaki mjög. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að stjórnvöld séu að horfa til lengri framtíðar og frekari uppbyggingar. Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við mbl.is.

850 milljónir á 52 staði

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja 850 milljónum til uppbyggingarverkefna á 52 stöðum á landinu, en stærstu upphæðirnar fara í uppbyggingu á Þingvöllum og Skaftafelli, eða 156,5 og 160 milljónir. Þá fara 50 milljónir í Geysi og 34 milljónir í Gullfoss. Meðal þess sem á að byggja upp eru útsýnispallar, göngustígar og klósettaðstaða.

Í framhaldi þessarar úthlutunar verður aukið fjármagn sett í uppbyggingu á ferðamannastöðum á næstu árum samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en vinna við það er þegar hafin. Þá á að vinna landsáætlun um uppbyggingu innviða í samstarfi stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Undirstrikar mikilvægi ferðaþjónustu

Helga segir fyrstu viðbrögð sín vera að fagna þessum fréttum og að þarna séu stjórnvöld að undirstrika mikilvægi ferðaþjónustunnar. Segir hún að þessum fjármunum sé vel varið og að þeir muni skila sér margfalt til baka, enda byggi ferðaþjónustan allt sitt á náttúrunni.

Hún segist sérstaklega fagna því sem fram kemur í yfirlýsingunni að þetta sé fyrsta skrefið og að á næstu árum verði ráðist í enn frekari uppbyggingu. „Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur,“ segir Helga og bætir við að þarna sé grunnurinn settur niður og að í framhaldinu verði svo bygg ofan á hann. Það hafi verið mjög nauðsynlegt á þessum tímapunkti að fara í þessar aðgerðir, enda náttúran að þolmörkum komin á mörgum stöðum.

Aðspurð út í hvort þetta þýði að aðgangspassar eða náttúrugjöld séu út af borðinu segir Helga að þegar búið sé að setja upp grunninn megi horfa til einhverskonar virðisaukandi þjónustu, hvernig sem hún verði framkvæmd, en að þetta sé nauðsynlegt byrjunarskref.

Helga segir þessa fjármuni vera góðan grunn til frekari uppbyggingar …
Helga segir þessa fjármuni vera góðan grunn til frekari uppbyggingar á næstu árum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka