Ekkert annað en „eftir-á-tilbúningur“

Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson mbl.is/Styrmir Kári

Fulltrúar fjögurra náttúruverndarsamtaka segja fullyrðingar Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns atvinnuveganefndar Alþingis, um að sátt hafi verið rofin um rammááætlun á síðasta kjörtímabili stangast á við hans eigin orð gegn flokkun Þjórsárvera í verndarflokk í ágúst 2011. Segja þeir þingmanninn hafa verið afar ósáttan við niðurstöður rammaáætlunar, hvort heldur var fyrir eða eftir framlagningu þingsályktunartillögu þar um.

„Tal hans um að sátt hafi ríkt um niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar og að sú sátt hafi verið rofin er eftir-á-tilbúningur. Ekkert annað,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

„Ennfremur skal minnt á að aldrei hefur verið sátt um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og var því komið skýrt á framfæri á fundi með atvinnuveganefnd Alþingis í vetur sem og í skriflegum athugasemdum við tillögu meirihluta nefndarinnar. Í þeim athugasemdum komu einnig fram mörg veigamikil rök gegn Þjórsárvirkjunum vegna áhrifa þeirra á lífríki, landslag og samfélag. Þau rök kaus meirihluti atvinnuveganefndar að hundsa.“

Gerir hópurinn kröfu um að Alþingi vísi frá breytingatillögu meirihluta atvinnuveganefndar enda standist hún ekki lög um rammaáætlun. Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér að neðan.

Fréttatilkynning um fullyrðingar Jóns Gunnarssonar

Jón Gunnarsson, þingmaður (D) og formaður atvinnuveganefndar Alþingis , ritar langan ópus í Morgunblaðið 26. maí til réttlætingar framgöngu sinni og meiri hluta atvinnuveganefndar. Fullyrðingar þingmannsins um að sátt hafi verið rofin um rammaáætlun á síðasta kjörtímabili stangast á við hans eigin orð gegn flokkun Þjórsárvera í verndarflokk í ágúst 2011. Hann, Bjarni Benediktsson og fleiri þingmenn voru afar ósáttir með þá flokkun Þjórsárverasvæðisins. Af hendi fagmanna.

Athugasemdir Verndarsjóðs villtra laxa og fjölmargra annarra samtaka við virkjunaráform í neðri Þjórsá sýndu ótvírætt að virkjanir þar ógna laxfiskum í ánni og því var ekki verjandi annað en að flytja þær í biðflokk. Það var gert í fullkominni ósátt við Jón Gunnarsson þótt aðrir þingmenn, t.d. Sigurður Ingi Jóhannsson, hefðu fallist á að Urriðafossvirkjun væri vafasamur virkjunarkostur út frá umhverfissjónarmiðum.

Jón Gunnarsson er sá þingmaður sem síst af öllum var sáttur við niðurstöður rammaáætlunar, hvort heldur var fyrir eða eftir framlagningu þingsályktunartillögu þar um í samræmi við lög. Tal hans um að sátt hafi ríkt um niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar og að sú sátt hafi verið rofin er eftir-á-tilbúningur. Ekkert annað.

Ennfremur skal minnt á að aldrei hefur verið sátt um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og var því komið skýrt á framfæri á fundi með atvinnuveganefnd Alþingis í vetur sem og í skriflegum athugasemdum við tillögu meirihluta nefndarinnar. Í þeim athugasemdum komu einnig fram mörg veigamikil rök gegn Þjórsárvirkjunum vegna áhrifa þeirra á lífríki, landslag og samfélag. Þau rök kaus meirihluti atvinnuveganefndar að hundsa.

Undirrituð gera kröfu um að Alþingi vísi frá breytingatillögu meirihluta atvinnuveganefndar enda stenst hún ekki lög um rammaáætlun. Umhverfisráðherra er - að lágmarki - skylt að standa vörð um þá miklu vinnu sem liggur að baki þeirri áætlun sem Jón Gunnarsson og félagar vilja að engu hafa.

Guðfinnur Jakobsson, Sól á Suðurlandi

Ólafía Jakobsdóttir, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands

Árni Finnsson, Náttúruverndarsamtökum Íslands

Oddur Bjarnason, formaður Veiðifélags Þjórsár

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert