Vísbendingar eru um að of greiður aðgangur að lánsfé skýri að hluta vanskil fjölda fólks með íbúðalán á Suðurnesjum.
Það kemur þannig fram í nýrri skýrslu, Fjölskyldur sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á Suðurnesjum 2008–2011, eftir Láru Kristínu Sturludóttur, að of mikil lántaka sé hluti skýringarinnar:
„Auðvelt var að fá lán hjá bönkum og sparisjóðum og voru svarendur margir á því að ekki hefði verið „neitt vit“ í að lána þeim þær fjárhæðir, eða það háa lánshlutfall, sem þeir fengu fyrir íbúðakaupunum, en að á þeim tíma hefði ríkt uppgangur og bjartsýni og miklar væntingar verið til ýmissa mála á Suðurnesjum, svo sem til atvinnuuppbyggingar,“ segir þar orðrétt. Er svo tekið fram að viðmælendur í viðtölum hafi margir nefnt að þeim „hafi boðist hærri lán til íbúðakaupanna en þeim sjálfum fannst forsvaranlegt“.
Var þetta 2. algengasta skýringin á skuldavandanum á eftir „forsendubresti vegna hrunsins“. Eins og tilvitnunin ber með sér var skýrslan unnin upp úr könnun.
Meðal niðurstaðna skýrslunnar, sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið, er að rúmlega helmingur svarenda með börn á heimili taldi að mikilsverðar breytingar hefðu orðið í lífi barns eða barna vegna nauðungarsölu eða breytinga á fjárhag heimilisins. „Algengustu breytingar voru skólaskipti (45%), rofin eða minnkuð tengsl við vini sína (32%) og að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi (15%),“ segir þar meðal annars um áhrifin á líf barnanna.
Um 24% svarenda voru öryrkjar. Þátttakendur voru spurðir um hæsta stig menntunar sem þeir hefðu lokið. Tæplega 44% svarenda hafa lokið grunnskóla eða minni menntun, 45% hafa lokið námi á framhaldsskólastigi, þar af 26,2% iðnnámi/verklegu námi, og um 11% hafa lokið námi á háskólastigi.
Rúmlega 81% svarenda býr nú í leiguhúsnæði og tæp 9% í eigin húsnæði. Um 10% svarenda búa ýmist inni á ættingjum eða hafa afnot af húsnæði í eigu ættingja.
Í níunda kafla sparisjóðaskýrslunnar er vitnað til skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun í Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008. Þar sé tilgreint að lán til fasteigna- og byggingastarfsemi hafi verið um 29% af útlánum til atvinnugreina, eða 13% af heildarútlánum, og íbúðalán 20%. „Miðað við stöðu íbúðalána í lok apríl 2008 voru veðsetningarhlutföll vegna íbúðalána undir 70% hjá 46% lántakenda, rúm 40% lána voru með 70–90% veðsetningu og rúm 6% með 90–100% veðsetningu. Hlutfall þeirra sem voru með yfir 100% veðhlutfall hafði hækkað úr 6,8% í lok árs 2007 í 9,1% í lok apríl 2008,“ segir í sparisjóðaskýrslunni.