Sögðu ekki „neitt vit“ í lánum sem þeir fengu

Mikil lántaka á þátt í skuldavanda suður með sjó.
Mikil lántaka á þátt í skuldavanda suður með sjó. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vísbendingar eru um að of greiður aðgangur að lánsfé skýri að hluta vanskil fjölda fólks með íbúðalán á Suðurnesjum.

Það kemur þannig fram í nýrri skýrslu, Fjölskyldur sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á Suðurnesjum 2008–2011, eftir Láru Kristínu Sturludóttur, að of mikil lántaka sé hluti skýringarinnar:

„Auðvelt var að fá lán hjá bönkum og sparisjóðum og voru svarendur margir á því að ekki hefði verið „neitt vit“ í að lána þeim þær fjárhæðir, eða það háa lánshlutfall, sem þeir fengu fyrir íbúðakaupunum, en að á þeim tíma hefði ríkt uppgangur og bjartsýni og miklar væntingar verið til ýmissa mála á Suðurnesjum, svo sem til atvinnuuppbyggingar,“ segir þar orðrétt. Er svo tekið fram að viðmælendur í viðtölum hafi margir nefnt að þeim „hafi boðist hærri lán til íbúðakaupanna en þeim sjálfum fannst forsvaranlegt“.

Var þetta 2. algengasta skýringin á skuldavandanum á eftir „forsendubresti vegna hrunsins“. Eins og tilvitnunin ber með sér var skýrslan unnin upp úr könnun.

Rætt við 163 einstaklinga

Úrtakið í símakönnuninni, 335 fjölskyldur, var allt þýðið að frátöldum 45 einstaklingum og fjölskyldum þar sem eini eigandi húsnæðisins, eða báðir, var með skráð lögheimili erlendis í mánuðinum þegar könnunin fór fram. Alls 163 einstaklingar svöruðu, sem var 44,8% svarhlutfall.

Meðal niðurstaðna skýrslunnar, sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið, er að rúmlega helmingur svarenda með börn á heimili taldi að mikilsverðar breytingar hefðu orðið í lífi barns eða barna vegna nauðungarsölu eða breytinga á fjárhag heimilisins. „Algengustu breytingar voru skólaskipti (45%), rofin eða minnkuð tengsl við vini sína (32%) og að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi (15%),“ segir þar meðal annars um áhrifin á líf barnanna.

Um 24% svarenda voru öryrkjar. Þátttakendur voru spurðir um hæsta stig menntunar sem þeir hefðu lokið. Tæplega 44% svarenda hafa lokið grunnskóla eða minni menntun, 45% hafa lokið námi á framhaldsskólastigi, þar af 26,2% iðnnámi/verklegu námi, og um 11% hafa lokið námi á háskólastigi.

Rúmlega 81% svarenda býr nú í leiguhúsnæði og tæp 9% í eigin húsnæði. Um 10% svarenda búa ýmist inni á ættingjum eða hafa afnot af húsnæði í eigu ættingja.

Margir með 100% veðhlutfall

Við lestur þessarar greiningar rifjast upp sú niðurstaða í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna, að fjöldi lántaka hjá Sparisjóðnum í Keflavík var orðinn mjög skuldsettur fyrir hrun.

Í níunda kafla sparisjóðaskýrslunnar er vitnað til skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun í Sparisjóðnum í Keflavík frá september 2008. Þar sé tilgreint að lán til fasteigna- og byggingastarfsemi hafi verið um 29% af útlánum til atvinnugreina, eða 13% af heildarútlánum, og íbúðalán 20%. „Miðað við stöðu íbúðalána í lok apríl 2008 voru veðsetningarhlutföll vegna íbúðalána undir 70% hjá 46% lántakenda, rúm 40% lána voru með 70–90% veðsetningu og rúm 6% með 90–100% veðsetningu. Hlutfall þeirra sem voru með yfir 100% veðhlutfall hafði hækkað úr 6,8% í lok árs 2007 í 9,1% í lok apríl 2008,“ segir í sparisjóðaskýrslunni.

Fjórðungur aðfluttur

Fram kemur í nýrri skýrslu velferðarráðuneytisins um nauðungarsölur á Suðurnesjum að 63% svarenda, eða 95, bjuggu á Suðurnesjum áður en húsnæðið var keypt sem viðkomanndi missti síðar á nauðungarsölu. Fjórðungur svarenda bjó á höfuðborgarsvæðinu áður en húsnæðið var keypt, eða alls 38 svarendur, en 17 svarendur, um 11%, komu frá öðrum landssvæðum (15) eða höfðu búið erlendis (2). Meirihluti svarenda, um 64,7%, bjó áfram á Suðurnesjum eftir nauðungarsölu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert