Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu á Alþingi í dag ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita stórauknum fjármunum til brýnna endurbóta á vinsælum ferðamannastöðum og til vegamála. Ekki væru heimildir fyrir því í fjárlögum og fyrir vikið þyrfti að setja þessi útgjöld á fjáraukalög. Það gæti ekki flokkast undir vandaðastjórnsýslu eða agaða ríkisfjármálastefnu eins og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs orðaði það.
„Það var einmitt þannig að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár rétt fyrir jólin var hvort tveggja gagnrýnt að fjármagn til uppbyggingar á ferðamannastöðum og í þjóðgörðum og til framkvæmda í vegamálum væri ófullnægjandi og óraunhæft lítið. Fjárlögin mundu ekki halda með þessum lágu tölum. Engu að síður lokaði stjórnarmeirihlutinn fjárlögunum eins og raun ber vitni,“ sagði Steingrímur meðal annars í ræðu sinni.
„Flestir ættu að vita að viðkvæmir ferðamannastaðir liggja undir skemmdum þannig að ég tel að þessu fjármagni sé vel ráðstafað. Við vitum alveg hvers vegna þetta er til komið núna, það er vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag í þinginu um afgreiðslu um frumvarp um náttúrupassa,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, og bætti við að umrædd útgjöld væru í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að forgangsraða í þágu innviða samfélagsins.
„Varðandi fjármagn til Vegagerðarinnar þá fagna ég því mjög því að ástand vegakerfis landsins eftir síðasta kjörtímabil er vægast sagt í molum, því engu fjármagni var varið í þann málaflokk á síðasta kjörtímabili.“ Lagði Vigdís áherslu á að um einskiptisaðgerð væri að ræða og vitnaði í því sambandi til orða Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gaf lítið fyrir þau ummæli Vigdísar að um einskiptisaðgerð væri að ræða. „Ég get þá alveg sem fjármálaráðherra farið og pantað þúsund styttur sem verður dritað út um allt land og sagt að það sé einskiptisaðgerð og sett hana á fjáraukann. Það eru náttúrlega ekki rök sem halda vatni.“