Mikilvægt að njóta menntaskólaáranna

Lára Margrét í London síðasta vetur.
Lára Margrét í London síðasta vetur. Mynd/Úr einkasafni

Númer eitt, tvö og þrjú til að ná árangri er að mæta í tíma og vinna það sem á að gera heima. Þá kom hjálp frá vinum og foreldrum einnig að góðum notum. Þetta segir Lára Margrét Gísladóttir, en hún varð dúx við Menntaskólann á Ísafirði, með einkunnina 9,33, nú um helgina. Hún segir að það hafi einnig verið mjög mikilvægt að reyna að njóta menntaskólaáranna sem best.

Ómetanlegt að hafa menntaskóla á Ísafirði

Lára, sem er fædd og uppalin á Ísafirði, er dóttir Gísla Gunnlaugssonar og Þórdísar Lilju Jensdóttur. Hún segist alltaf hafa verið viss um að ætla í menntaskólann á Ísafirði. „Það er ómetanlegt að hafa menntaskólann á Ísafirði,“ segir hún og bætir við að það hafi verið frábært að þurfa ekki að flytja að heiman 16 ára.

Aðspurð út í uppáhalds fögin segir hún að stærðfræði og eðlisfræði hafi verið hennar svið og raungreinar almennt. Þannig hafi henni einnig gengið mjög vel í efnafræði og líffræði. Tungumálin hafi aftur á móti reynst þyngri, jafnvel þótt hún segi sjálf að franskan hafi gengið óvenjulega vel á lokaárinu.

Stígandi í árangri eftir því sem leið á

Lára segir að hún hafi í upphafi skólagöngu sinnar ekki verið með afburða einkunnir og á þeim tíma aldrei efst í bekknum. Þegar leið á grunnskólann hafi hún aftur á móti gengið betur og á síðustu þremur árum skólans skiptust hún og frænka hennar á að ná hæstu einkunn. Hún hafi svo ákveðið að reyna að standa sig vel í menntaskólanum og það hafi gengið eftir.

Meðfram námi hefur Lára unnið í Gamla bakaríi á Ísafirði, en á sumrin liggur leiðin í Hraðfrystihúsið Gunnvöru. Þá reynir hún að kíkja á alla fótbolta- og handboltaleiki sem hún getur, en sjálf spilaði Lára fótbolta þegar hún var yngri. Á veturna segist Lára einnig vera dugleg að fara á skíðasvæðið, bæði á göngu- og svigskíðum.

Vill ferðast og svo í verkfræði eða líffræði

Næstu skref eru ekki alveg ákveðin, en Lára segir að hún ætli að bíða með skóla í eitt ár og fara að vinna. Ætlar hún svo að reyna að ferðast eitthvað og er t.d. með augun á tungumálaskóla á Möltu. Þá hefur hún skipulagt ferð til Kanada í þrjár vikur í sumar, auk þess sem S-Evrópa heillar hana. Segist Lára stefna á háskóla að ári liðnu og að það sé verkfræðin sem hún horfi helst til í dag. Þó segir hún líffræðina einnig áhugaverða. „Þetta mun koma í ljós í fyllingu tímans. Ég á eftir að finna mína hillu,“ segir Lára örlítið hlægjandi.

Frá útskriftinni um síðustu helgi.
Frá útskriftinni um síðustu helgi. Mynd/Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert