Sérfræðingar Vinnumálastofnunar spá því að atvinnuleysi verði að jafnaði 2,8% 2016 og 2,4-2,5% 2017. Rætist spáin verður talsverð spenna á vinnumarkaði á næstu misserum.
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir stofnunina spá 3,1% atvinnuleysi að meðaltali í ár og 2,7-2,8% atvinnuleysi yfir hábjargræðistímann í sumar. Til samanburðar var atvinnuleysið að jafnaði 3,4% í apríl. Atvinnulausum hefur fækkað hvað mest í verslun. Þeir voru þannig 1.214 í apríl í fyrra en hafði fækkað í 1.019 í apríl.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Karl þann tímapunkt að nálgast að eftirspurn eftir vinnuafli verði meiri en framboðið.