„Þarf augljóslega að laga“

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í flugsamgöngum á Íslandi, þar með …
Gríðarlegur vöxtur hefur verið í flugsamgöngum á Íslandi, þar með tengiflugi um Keflavíkurflugvöll. mbl.is/Eggert

Flugvirktarráð segir að gjaldheimildir opinberra stofnana, sem þjónusta flug, þurfi að vera í samræmi við umfang þeirrar þjónustu sem krafist er og atvinnugreinar óska eftir. Núverandi fyrirkomulag sé hamlandi fyrir frekari vöxt og viðgang og þurfi augljóslega að laga.

+Þetta kemur fram í ályktun, sem ráðið hefur sent frá sér. Þar segir ennfremur:

„Gríðarlegur vöxtur í flugsamgöngum, þar með tengiflugi um Keflavíkurflugvöll, og ferðaþjónustu hefur verið afar mikilvægur fyrir efnahagslega endurreisn eftir hrunið 2008. Flugfélög, gististaðir og aðrir ferðaþjónustuaðilar hafa notið góðs af auknum umsvifum, skapað störf og bætt afkomu sína og ríkissjóðs.

Gjaldheimildir opinberra aðila, svo sem Samgöngustofu, lögreglu, tolls, heilbrigðisstofnana og fleiri eru ákveðnar á fjárlögum. Heimildirnar taka oft lítið tillit til áætlana um aukin umsvif og jafnvel er gerð krafa um niðurskurð þess í stað. Við þessar aðstæður hafa stofnanir ekki heimild til að bregðast við alþjóðlegum kröfum og óskum atvinnulífsins, um aukna þjónustu, jafnvel þó að þjónustan skili tekjum, umfram útgjöld, beint í ríkissjóð. Þetta er hamlandi fyrir frekari vöxt og viðgang viðkomandi atvinnureksturs, ferðamenn og samfélagið og þarf því augljóslega að laga.“

Samgöngustofa sendi ályktunina fyrir hönd flugvirktarráðs.

Flugvirktarráð er skipað af innanríkisráðherra. Það er samráðsvettvangur þeirra aðila sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm til þess að flutningur gangi snurðulaust fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert