Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðir sem miða að því að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Ýmsir þættir aðgerðanna, svo sem breytingar á skattkerfinu með tilheyrandi skattalækkunum á lág- og millitekjufólk, eru forsendur undirritunar sumra kjarasamninga.
Frétt mbl.is: Lækka tekjuskatt einstaklinga
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir fyrirhugað að byggja 2.300 félagslegar íbúðir á næstu fjórum árum. Til að setja það í samhengin þá benti hann á að íbúafjöldi í þeim íbúum myndi jafngilda öllum íbúafjölda Borgarness og allra sveitarfélaganna á Snæfellsnesi. Væri um sérstakt sveitarfélag að ræða væri það það 10. stærsta á landinu.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti aðgerðir ríkisins sem lúta að húsnæðismálum. „Eins og þið hafið heyrt hjá forsætisráðherra þá er umfangið mjög mikið varðandi húsnæðismálin. Ég held það sé óhætt að fullyrða að það hafa ekki verið tekin eins stór skref í uppbyggingu félagslegs húsnæðis hér á Íslandi í 50 ár.“ Hún sagði hittast skemmtilega á að þá, fyrir 50 árum, var alnafni fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, í forsvari þeirrar ríkisstjórnar.
„Við erum að leggja grunninn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Þar erum við að horfa til þess að leiga einstaklinga með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20 til 25 prósent af tekjum.“ Hún segir að í dag geti þetta hlutfall verið á bilinu 50 til 70 prósent. „Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt,“ segir Eygló.
Nánar um aðgerðir í húsnæðismálum
Húsnæðið verður hugsað fyrir fólk í lægstu tveimur tekjufjórðungunum, sem núna hefur ekki haft möguleika á félagslegu húsnæði í húsnæðiskerfi sveitarfélaganna. „Þetta var skýr krafa verkalýðsfélaganna. Ég vil þakka fyrir mjög gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins að þessari yfirlýsingu.“
Eygló segir ríkisstjórnina einnig stefna að því að auka framboð á húsnæði með breytingum til að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar. „Við munum meðal annars endurskoða byggingarreglugerð, horfa til skipulagslaga, gjaldtöku sveitarfélaga vegna lóða- og gatnagerðargjalda til að lækka byggingarkostnað í samræmi við ábendingar.“
Eygló segir að almenni leigumarkaðurinn sé líka til skoðunar og horft til þess að styðja við leigjendur á almennum markaði. „Til að lækka enn frekar húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar á árunum 2016 og 2017 og grunnfjárhæðir og frítekjumark hækkað.“
Þá sagði hún að skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verði breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða og að stefnt verðið að sérstökum lagalegum ráðstöfunum fyrir fyrirtæki til að hvetja til langtímaleigusamninga og auka þannig búsetuöryggi á almennum markaði.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig að komið verði til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem hafi sparað tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, til dæmis þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð.