„Það er fyrst og fremst ánægjulegt að hafa náð lausn á þessari erfiðu stöðu sem upp var komin,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um afstöðu sína gagnvart undirritun kjarasamnings við VR, LÍV og Flóabandalagið í dag.
„Hér er kominn kjarasamningur til nokkuð langs tíma sem er alveg ljóst að mun skila umtalsverðum hækkunum á lægstu launum og verður þá vonandi til þess að auka kaupmátt hér áfram,“ segir Þorsteinn. „Við treystum því að okkur takist að vinna úr þessari stöðu þannig að okkur takist að verja þann stöðugleika sem hér hefur náðst og halda verðbólgunni niðri þannig að þetta verði farsæl niðurstaða þegar upp er staðið.“
Þorsteinn segir samningsferlið hafa verið afar erfiða lotu fyrir margar sakir, það hafi tekið langan tíma og verið mjög harða á tímabili. „Vissulega er það svo að allir þurfa að gefa eitthvað eftir í eins erfiðri stöðu og var, það á ekkert síður við um okkur,“ segir Þorsteinn en undirstrikar að hann telji útkomuna jákvæða fyrir alla hlutaðeigandi.
Í samningnum er gerður fyrirvari um kaupmáttaraukningu. Verði ekki af henni verður samningnum sagt upp og því er ekki úr vegi að spyrja hvort Þorsteinn óttist ekki að standa í nákvæmlega sömu stöðu að ári?
„Við höfum fulla trú á því að það verði kaupmáttaraukning útfrá þessum kjarasamningi en auðvitað er mikilvægt að fyrirtæki leggist á eitt við að tryggja að svo verði og reyna að leita allra leiða í aukinni framleiðni og hagræðingu í sínum rekstri til að forða því að miklar kostnaðarhækkanir leki út í verðlag.“