Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir forsendu fyrir að kjarasamningurinn sem var undirritaður í dag vera að aðrir hópar fái ekki hagstæðari samninga en þá sem voru undirritaðir í dag. Eins og fram kom á mbl.is í dag eru forsendur samningsins mun fleiri, svo sem eins og þær breytingar sem gerðar verða á skattkerfinu og að það takist að ná fram raunverulegum kjarabótum, þannig að verðbólga éti ekki upp þær launahækkanir sem boðaðar eru í samningnum. Hér á myndunum að neðan er samningur LÍV og VR við SA í heild, en aðrir samningar eru að öllu verulega samhljóða þeim samningi.
Í 7. grein samningsins er farið yfir forsendur samningsins. Þar segir:
Kjarasamningur þessi hvílir á þremur meginforsendum sem eru að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum, að launastefna hans verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamngagerð og að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninginn.
Fari svo að einhver af ofangreindum forsendum standist ekki skal kalla saman sameiginlegan fund samninganefnda ofangreindra samningsaðila og framkvæmdastjórnar SA sem leita skulu samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiða samningsins, treysta forsendur hans og vinna að því að hann haldi gildi sínu.
Á vef VR segir að lægstu launataxtar VR hækka um 31,1% eða kr. 64.208 á samningstímanum. Lágmarkstekjur verða 300 þúsund krónur á mánuði frá maí árið 2018.
Launahækkun 1. maí 2015
Launahækkun 1. maí 2016
Launahækkun 1. maí 2017
Launahækkun 1. maí 2018
LÁGMARKSTEKJUR FYRIR FULLT STARF VERÐA KR. 300 ÞÚSUND
Lágmarkslaun með tekjutryggingu hækka í 245 þúsund krónur við undirskrift samningsins en þau eru í dag 214 þúsund krónur á mánuði. Í maí árið 2018 verða lágmarkstekjur 300 þúsund krónur á mánuði. Miðað er við lágmarkstekjur á mánuði fyrir fullt starf.