Hitinn á Kirkjubæjarklaustri mældist 13,7°C á hádegi í dag og 13,1°C á Sámsstöðum í Rangárþingi. Í Skaftafelli náði hitinn 13,0°C, en á höfuðborgarsvæðinu fór hann hæst í 9,9°C. Norðan heiða er þó heldur kaldara, en á Akureyri er hitinn 6°C, á Blönduósi 4°C og á Egilsstöðum 5°C.
Það má því segja að sunnlendingar hafi fengið smá vott af sumarveðri í dag. Því miður virðist dagurinn í dag ekki hafa neitt mikið forspárgildi fyrir hækkandi hita og sumarveður næstu daga, en fyrir norðan geta menn þó huggað sig við að spáð er sólarveðri. Hitinn verður aftur á móti um og undir 10°C. Sunnanlands verður þyngra yfir og mun hiti fara lækkandi á næstu dögum.
Veðurspá frá Veðurstofur Íslands í dag og næstu daga:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning eða slydda með köflum N-lands, en skúrir seinnipartinn. Lengst af léttskýjað syðra. Hiti 2 til 12 stig, hlýjast fyrir sunnan. Vaxandi suðaustanátt í fyrramálið, 10-18 og fer að rigna við SV-ströndina síðdegis, en annars mun hægari og léttir til og hlýnar fyrir norðan.