Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun áranna 2015 til 2018. Á þessu tímabili er gert ráð fyrir að tæpum 112 milljörðum króna verði varið til verkefna á öllum sviðum samgangna og að framlög til þeirra aukist um 3% árlega árin 2016 til 2018 í samræmi við hagvaxtarspár.
Ráðherra sagði í ræðu sinni að óskandi hefði verið að hefja fleiri verkefni á tímabilinu en hún sagði tillöguna byggjast á raunsæi og fyrirhyggju þar sem fjármunir væru takmarkaðir, að því er fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins.
Umræða um samgönguáætlun stóð á Alþingi frá hádegi og fram eftir degi og tóku margir þingmenn til máls í umræðunni. Gengur málið síðan til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd
Meðal þess sem innanríkisráðherra dró fram í framsöguræðu sinni var að samgöngukerfið væri ein af grundvallarforsendum öflugs atvinnulífs og búsetugæða. Líta ætti á kerfið sem eina heild hvort sem um væri að ræða samgöngur á landi, lofti eða á sjó. Þrátt fyrir að líta ætti á samgöngukerfið sem eina heild yrði að horfa til þess að verkefni á landsvæðum sem byggju við lakastar samgöngur yrðu að njóta ákveðins forgangs. Þá lagði ráðherra áherslu á mikilvægi öryggis í öllum greinum samgangna, ekki síst í umferðinni, sem væri mikilvægt vegna aukins umferðarþunga samfara vaxandi fjölda ferðamanna.