Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir það alvarlegt mál að ekki sé búið að fjármagna viðamiklar aðgerðir ríkisstjórninnar, til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, sem kynntar voru í gær.
„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og dregur mjög úr trausti á að það sé verið að stefna hér áfram að fjármálastöðugleika,“ sagði Þorsteinn í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.
Ríkisstjórnin boðaði í gær meðal annars lækkun tekjuskatts, átak í húsnæðismálum og aðgerðir í velferðarmálum. Beinn kostnaður við aðgerðirnar er talinn níu til ellefu milljarðar króna.
Þorsteinn sagðist hissa á því að ríkisstjórnin hafi ekki útskýrt, þegar aðgerðirnar voru kynntar í gær, hvernig eigi að fjármagna þær.
Hann sagði jafnframt að kjarasamningarnir, sem undirritaðir voru í gær, færu út fyrir þau mörk sem markmið um stöðugleika þola. Viðbúið væri að vextir myndu nú hækka.
„Menn mega heldur ekki gleyma því að ríkið er að koma inn með alveg gífurlega miklum aðgerðum og þungum. Það er sjaldan sem ríkið hefur komið inn í kjarasamninga með eins afgerandi hætti,“ sagði Þorsteinn einnig.
Hann sagðist einnig vera sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra um að skattahækkanir hlytu að koma til greina ef sú staða kæmi upp að mæta þurfi verðbólgu og þenslu í hagkerfinu.