Ekki tekin áhætta vegna sæstrengs

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir alveg ljóst að Íslendingar ættu ekki að taka fjárhagslega áhættu varðandi lagningu sæstrengs yfir á önnur markaðssvæði, svo sem til Bretlands. Áhættan verði að vera annars staðar.

„Þetta hefur bæði kosti og galla,“ segir Hörður. „Það eru atriði sem huga þarf að, einkum raforkuverð til heimilanna, að tryggja iðnaði samkeppnishæft umhverfi og umhverfismál. Komi í ljós að framkvæmdin beri sig ekki verður að sjálfsögðu ekki farið út í hana. Að mínu mati hvetur aukin arðsemi Landsvirkjunar heldur ekki til frekari virkjana en þetta verkefni myndi kalla á það. Eftir því sem velmegun þjóðarinnar eykst verða verndunarsjónarmið sterkari. Þetta höfum við séð víða erlendis, viðmiðið hækkar.“

– Eru Bretar mjög áhugasamir?

„Breska orkukerfið er í ógöngum og orkuöryggi landsins fyrir vikið ógnað. Þess vegna hafa Bretar verið að styðja við verkefni af þessu tagi og gera samninga milli landa, um sæstrengi, kjarnorkuver, vindorkuver og fleira. Þetta eru ekki beinlínis styrkir heldur er markmiðið að eyða óvissu orkuframleiðandans og tryggja raforkuöryggi Bretlands. Þörf þeirra er mikil og þess vegna getur verið hagkvæmt að skipta við þá.“

Nánar er rætt við Hörð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Landsvirkjun fagnar hálfrar aldar afmæli sínu í sumar.

mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka