Öll í báti sem heitir íslensk þjóð

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þeir kjarasamningar sem voru undirritaðir í gær eru mikið fagnaðarefni þar sem samið er um umtalsverðar launahækkanir, en á þeim nótum sem eru skynsamlegar og kollvarpa ekki öllu því sem hefur áunnist á undanförnum árum. Þetta segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í samtali við mbl.is, en hann gengur alla jafna undir nafninu Binni.

Mikil ábyrgð á ríki og sveitarfélögum

Aðspurður um kaupmáttarskilyrðin sem er að finna í samningunum segir Binni að það sé fín lína sem þurfi að fylgja. Segir hann að fyrir fyrirtæki sem selji vöru og þjónustu innanlands tákni þetta væntanlega einhverja hækkun vegna aukins launakostnaðar. Fyrirtæki í útflutningi, eins og sjávarútvegurinn, geti aftur á móti ekki sótt verðhækkanir til innlends markaðar og drífi því ekki áfram verðbólgu. Hækkanirnar komi því væntanlega niður á afkomu félaganna.

Binni segir að nú sé mikil ábyrgð hjá ríki og sveitarfélögum. Væntanlega muni þau semja um hækkun við starfsmenn sína, en til að halda stöðugleika og verðbólgu niðri geti þau þurft að halda aftur af hækkunum gjalda. Segir hann að því hljóti að koma til fækkunar starfsfólks hjá þeim.

Kallar á aukna framleiðni og hagkvæmni

Þegar Binni er spurður hvort að sjávarútvegurinn og vinnslan sé ekki vel í stakk búin fyrir hækkanir sem þessar eftir góð ár undanfarið segir hann að það sé misskilningur að sjávarútvegurinn hafi haft mikið upp úr gengisfalli krónunnar. Bendir hann á að mest allur rekstarkostnaður félaganna sé erlendur; olía, skip, tæki og búnaður. Þá séu laun sjónmanna tengd fiski- og afurðaverði.

„Það er þannig að fiskvinnsla eins og við þekkjum hana var fyrir hrun rekin með tapi,“ segir Binni. Með falli krónunnar hafi hlutfallslegur kostnaður lækkað og staðan batnað. Segir hann að með hækkandi kostnaði þurfi því að finna leið til að auka framleiðni og hagkvæmni, eigi fiskvinnslan áfram að vera arðsöm.

Öll í sama báti

Binni segir málið í raun ekki flókið. Undirstaða þjóðarbúsins séu fyrirtæki sem skapi verðmæti og þangað þurfi að sækja kaupmáttaraukninguna sem nú sé hluti af kjarasamningnum. Það þurfi því að búa til meiri verðmæti eða lækka kostnað. Arðinum þurfi svo að skipta milli eigenda, starfsmanna í formi launa og ríkis og sveitarfélaga með sköttum, en ef launin séu of há þannig að fyrirtækin geti ekki rekið sig með viðunnandi arðsemi, þá þýði það atvinnuleysi.

Hann segir þó niðurstöðu kjarasamninganna núna vera hófsama þar sem horft hafi verið fram á við án þess að ætla að kollvarpa því sem hafi áunnist á síðustu árum. „Við erum öll í sama báti sem heitir íslensk þjóð,“ segir Binni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert