Söfnuðu 3,5 milljónum fyrir MR

mbl.is/Ómar

Fulltrúar Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík afhentu stjórnendum skólans þrjár og hálfa milljón króna í gær sem stúdentar frá skólanum höfðu safnað. Peningunum verður varið í kaup á nýjum tölvum í tölvuver skólans, en hægt verður að festa kaup á tæplega 30 tölvum fyrir peninginn.

Kristín Heimisdóttir, tannlæknir og fyrrverandi MR-ingur, er í undirbúningsstjórn félagsins, en hún segir fyrrverandi nemendur hafa haft áhyggjur af skólanum, sem hefur ekki fengið miklar fjárveitingar til að bæta tækjakost, og því ákveðið að grípa í taumana. „Það er mjög margt sem þarf að laga. MR er mjög ódýr skóli í rekstri og fær ekki mikla fjármuni frekar en aðrir skólar,“ segir hún en bætir við að skólinn sé frekar neðarlega á blaði þegar kemur að peningamálum. „Við viljum að gamlir nemendur geti stutt við starfsemi skólans á þennan hátt.“

Fjáröflunin var sett af stað í febrúar sl. og fengu allir stúdentar frá skólanum þá valgreiðslukröfu í heimabankann upp á 2.900 krónur. Kristín segir að ætlunin hafi verið að safna saman netföngum allra, en það hafi reynst of mikil vinna svo þessi leið hafi verið farin. „En það var auðvitað engum skylt að borga neitt.“

Auk þessa hefur hollvinafélagið miklar áhyggjur af þeim breytingum sem unnið er að og eiga að stytta framhaldsskólanám í þrjú ár. „Fyrir mig að hafa verið í MR og alltaf átt auðvelt með nám veit ég þó að ég hefði aldrei getað tekið það námsefni sem ég tók í MR á styttri tíma en fjórum árum,“ segir Kristín og bendir á að Yngvi Pétursson, rektor skólans, hafi lagt til að nemendur yrðu frekar teknir inn í skólann beint eftir 9. bekk í grunnskóla. „Ef markmiðið er að stytta tímann sem það tekur ungmennin að taka stúdentspróf um eitt ár þá finnst mér þetta jafngild leið sem menn mættu íhuga rækilega áður en þetta skref verður tekið.“

Kristín segist hafa áhyggjur af því að námið muni skerðast, og í kjölfarið muni nemendur ekki koma jafnundirbúnir inn í háskóla. „Mér finnst þetta svolítið fálmkennt og mikið tilraunaverkefni. Amma mín segir að maður eigi ekki að gera tilraunir á börnum og ég er alveg sammála því,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert