Vigdís: Ekki aðför að menntun

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Rax

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist ekki taka undir það að kjarasamningarnar sem voru undirritaðir í gær séu aðför að menntun í landinu.

Í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun sagði Vigdís það ekki eiga við rök að styðjast.

„Ég get engan veginn tekið undir það að þeir kjarasamningar sem hafa náðst séu aðför að menntun. Það var samið um það, sem hefur verið kallað eftir í mörg ár, að lyfta þeim sem lægst hafa launin upp í 300 þúsund krónur. Þannig að þetta er svolítill tvískinnungur. Ef þetta er almenn skoðun að þessir samningar séu aðför að menntun, þá segi ég: Sömu aðilar klifa sífellt á því að það sé sífellt verið að breikka bilið og að hér ríki mikill ójöfnuður.

Það má ekki láta það bitna á þeim sem lægstu launin hafa, þannig að mér finnst þetta ekki vera rök í dæminu,“ sagði Vigdís.

Hún benti jafnframt á að kjarasamningarnar gætu leitt til þess að framleiðni hér á landi ykist. „Framleiðni hér varð lág vegna þess að fólk var að hækka laun sín með yfirvinnutíma og helgarvinnu. Það er vitað mál að þeir sem vinna langan vinnudag skila minni framleiðni. Vonandi verður þetta til þess að þessi yfirvinnukúltúr hér á landi verði úr sögunni,“ sagði Vigdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert