Útlit er fyrir bjarta daga í upphafi vikunnar á Suðurlandi. Hálfskýjað er í Reykjavík í dag og besta veðrið á Vesturlandi en á morgun er spáð heiðskíru á Suð-vesturhorninu og hálfskýjuðu á Suðurlandi.
Á Norður- og Norðausturlandi er spáð rigningu eða skúrum og hitastigi í kringum 5 stig. Hitinn á Suðurlandi verður á bilinu 8-12 stig.
Á þriðjudaginn fer rigningin að aukast á Norðurlandi og hitinn verður örlítið fyrir ofan frostmark. Á Suðurlandi kólnar aðeins, hitinn verður í kringum 6-8 stig en hálf- eða léttskýjað verður. Það sama er uppi á teningnum á miðvikudaginn, hálf- eða léttskýjað á Suðurlandi en þá fer rigningin að minnka á Norð-vesturlandi. Áfram verður þó rigning á Norð-austurhorninu.
Á fimmtudaginn snýst taflið við og besta veðrið verður á Norðurlandi. Verður þar ekki sérlega hlýtt, aðeins 3-6 stig en heiðskýrt eða hálfskýjað verður víða. Á Suðurlandi verður áfram hlýtt en skúrir eða rigning verða á köflum. Þannig helst staðan fram á föstudag þar sem spáð er áframhaldandi hlýju á Suðurlandi. Þá fer líka að hlýna á Norðurlandi og er spáð prýðilegu veðri víðast hvar á Norðurlandi á föstudag með einstaka skúrum.
Sjá veðurvef mbl.is