„Háskólahugtakið útþynnt“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir þá kröfu skrýtna að miða launakröfur við menntun. „Þessi hugmynd um að laun miðist við menntun verður óheppilegri eftir því sem við þynnum út háskólahugtakið,“ segir Kári í útvarpsþættinum Sprengisandi.

Segir hann eðlilegra að finna aðferð sem sýnir hversu mikið hver og einn leggi til samfélagsins. „Það er nú háskóli í hverju krummaskuði og peningurinn í deildum háskólanna miðast við fjölda. Deildirnar eru því komnar með hvata til að hleypa mönnum í gegnum próf. Fólk á auðvitað að fá hærri laun fyrir að leggja meira á sig og meira til samfélagsins. Það er vafasamt að nota háskólagráðu eina og sér til þess að hífa upp laun.“

Bolli Héðinsson er einnig gestur í Sprengisandi á Bylgjunni. Hann segir baráttu BHM snúast um meira en bara kjör þeirra sem nú starfa. „Þetta er farið snúast um kjör þeirra sem hafa ekki hafið störf enn. Fólki í dag þykir ekkert tiltökumál að starfa erlendis og snúa ekki aftur heim. Ég og Kári lærðum báðir erlendis en við vorum ekkert að hugsa sérstaklega um tekjurnar þegar við snerum aftur heim, heldur framtíðarsamfélagið. Þá var verið að gera hlutina betur í dag en í gær og við höfðum trú á samfélaginu,“ segir Bolli.

Kári bætir við að staða ungs fólks sé öðruvísi í dag. „Þegar við fórum til útlanda vildum við koma heim til að sjá samfélagið þróast. Krakkar í dag búa að hluta til í netheimum þar sem eru engin landamæri. Það er því minna mál fyrir þau að fara erlendis og koma ekki aftur,“ segir Kári.

Vill ekki að læknar hafi verkfallsrétt

Einnig var rættum verkföll heilbrigðisstétta í þættinum. Kári segist vera á þeirri skoðun að læknar og heilbrigðisstarfsmenn eigi ekki að hafa verkfallsrétt. „Það er furðulegt að læknar sem fóru í verkfall, hafa allir svarið Hippokratesar eiðinn og ég held að frá þeim eiði séu engar undanþágur vegna verkfalls, og það sama á við um aðrar heilbrigðisstéttir.“

„Ástæðan fyrir ástandinu er sú að við höfum vanrækt heilbrigðisstéttirnar. Við ættum að setja á þannig kerfi að heilbrigðisstéttir fái laun sem eru ívið hærri en í öðrum stéttum, vegna þess að þeir séu ekki með verkfallsrétt,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert