„Þetta kom okkur töluvert á óvart og var ekki eitthvað sem við áttum von á,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, en litlu munaði að flugvél flugfélagsins rækist í flugstöðina á Ísafirði síðdegis í dag eftir að hún snérist í hálfhring. Greint var frá atvikinu á vef Ríkisútvarpsins.
Snörp vindhviða feykti vélinni, sem var nýlega lent frá Reykjavík. Enginn var þó um borð né nálægt vélinni þegar atvikið átti sér stað. Litlu munaði að annar vængur vélarinnar færi utan í flugstöðina þegar hún snérist, en Árni segist ekki muna til þess að neitt í líkingu við þetta hafi komið áður upp.
„Það virðist hafa verið meiri sviptivindur en við áttum von á, en það þarf nokkuð mikið til svo vél sem þessi snúist svona,“ segir hann.
Vélin er enn staðsett á Ísafirði og beðið er eftir færi til að senda flugvirkja á svæðið til að skoða hana. Að sögn Árna lítur ekki út fyrir að miklar skemmdir hafi orðið á vélinni, en flugvirkinn mun meta hvort hún sé hæf til að fljúga aftur í bæinn.
„Það er óhætt að segja að það er töluverður léttir að það lítur ekki út fyrir að miklar skemmdir hafi orðið á vélinni og við vonum að það standist þegar búið er að skoða hana vel,“ segir hann og heldur áfram: „Lendingabúnaðurinn þoli ansi mikið átak en vélin er tengd við rafmagn þegar hún er á jörðu niðri og það þarf að skoða hvort skemmdir hafi orðið þar í kring.“
Búið er að gera ráðstafanir svo vélin haldist stöðug og fari ekki aftur á flakk að sögn Árna. Vindáttin geti þó breyst hratt og það hafi verið raunin þegar þetta gerðist.