Fyrstu íslensku dekkin á götur í haust

ICELAND TYRES er fyrsta íslenska dekkjafyrirtækið.
ICELAND TYRES er fyrsta íslenska dekkjafyrirtækið. ljósmynd/ICELAND TYRES

„Við erum þegar farin að mæta efstu skilyrðum í prófunum og á mörgum kvörðum komum við betur út en sumir okkar stærstu keppinautar,“ segir Gunnlaugur Erlendsson, framkvæmdastjóri ICELAND TYRES, fyrsta íslenska dekkjafyrirtækisins.

Markmið fyrirtækisins er að framleiða háþróuð og harðgerð vetrardekk sem eru sérhönnuð fyrir akstur við erfiðustu aðstæður, sem útleggst á ensku „Tough Tyres for Rough Conditions“. Undirbúningur á framleiðslunni hefur staðið yfir í kyrrþey í nokkur ár, en nú hefur fyrirtækið hafið sölu á dekkjunum á Norðurlöndunum.

Stefnan að byggja umhverfisvæna dekkjaverksmiðju hér á landi

Þá er uppbygging á umhverfisvænni hátæknidekkjaverksmiðju á Íslandi einnig í skoðun og hefur fyrirtækið unnið að því verkefni um langt skeið. Forkönnun að slíkri dekkjaverksmiðju stendur nú yfir fram á næsta ár og ef áætlanir félagsins ná fram að ganga mun slík verksmiðja framleiða nokkrar milljónir dekkja árlega.

Gunnlaugur segir hins vegar að í ljósi þess að mörg stór atvinnuverkefni sem hafa verið í umræðunni á Íslandi hafi ekki enn orðið að veruleika sé í reynd ekki tímabært að fullyrða um að verksmiðjan rísi á Íslandi, enda vinnan enn á forkönnunarstigi.

Til lengri tíma litið er stefnan hins vegar ekki að framleiða nokkur dekk – heldur að byggja dekkjaverksmiðju sem yrði sú umhverfisvænsta í heiminum,“ segir hann. „Slík umhverfisvæn dekk eru flókin markaðsvara sem er bundin mörgum öryggisstöðlum, og framleiðsla þeirra byggist á hugarafli og starfskrafti frekar en að vera orkufrekur iðnaður. Markaðsímynd Íslands og staðsetning milli Norðurlanda og Norður-Ameríku er einnig ákjósanleg fyrir slíka umhverfisvæna verksmiðju og von okkar er að skapa hér störf ásamt því að valda hugarfarsbreytingu í umhverfisvernd og sjálfbærni í þessum iðnaði.“

Tvær tegundir dekkja til að byrja með

Að sögn Gunnlaugs standa að baki félaginu leiðandi norrænir sérfræðingar í dekkjaiðnaðinum frá Nokian Tyres í Finnlandi og hópur af erlendum og íslenskum fjárfestum. Teymið hjá ICELAND TYRES samanstendur af hópi Finna, Íslendinga, Svía og Þjóðverja og er félagið með höfuðstöðvar í miðborg Reykjavíkur og norræna söluskrifstofu í Gautaborg.

Fyrsta framleiðslan frá ICELAND TYRES er neglda dekkið ICELAND ICE og óneglda dekkið ICELAND SNOW og eru bæði þessi dekk í framleiðslu í Evrópu og hafa verið seld til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands fyrir komandi vetrarvertíð. Félagið mun einnig selja þessi dekk hér á landi og munu Íslendingar því eiga kost á að aka á íslenskum vetrardekkjum næsta vetur.

Fyrirtækið leggur mikla áherslu á öryggan akstur við erfiðar aðstæður og stefnir að því að verða á meðal öruggustu dekkjaframleiðanda í heimi. ICELAND ICE er því sérstaklega hannað fyrir erfið akstursskilyrði á ísilögðum götum og ICELAND SNOW hefur verið þróað til að tryggja öruggan akstur á vetrarvegum þar sem ekki er þörf á nöglum að sögn Gunnlaugs.

Í dag er vinsælla og vistvænna að aka á ónegldum vetrardekkjum og ICELAND SNOW var hannað sérstaklega með þetta í huga - en til að tryggja öruggan akstur við erfiðar aðstæður var mikilvægt fyrir okkur að hanna ICELAND ICE sem eitt besta nagladekkið á markaðnum,“ segir hann. Bæði dekkin uppfylla alla öryggisstaðla í Evrópu eftir að hafa gengið í gegnum ítarlegar dekkjaprófanir í Norður-Finnlandi og félagið hefur þegar undirritað dreifingasamninga á Norðurlöndum.

Gunnlaugur segir niðurstöður prófana í Norður-Finnlandi hafa komið afar vel út og teymið sé í skýjunum yfir viðtökum markaðarins. Þá standi til að framleiða fleiri tegundir dekkja í framtíðinni.

Hafa skapað sér nokkra sérstöðu

En hvernig kom upp hugmyndin um að framleiða íslensk vetrardekk?Hugmyndin vaknaði þegar ég var beðinn að vinna með aðilum frá Nokian Tyres og til tals kom hve flókið það yrði að byggja umhverfisvæna hátæknidekkjaverksmiðju, hugsanlega á Íslandi,“ segir Gunnlaugur. „Við byrjuðum þá að skoða frekar þessa hugmynd og það tók okkur nokkur ár að þróa þetta.“

Aðspurður hvernig það sé að koma inn á markað þar sem stórir framleiðendur ráða ríkjum segir Gunnlaugur að ICELAND TYRES muni ekki gefa þeim neitt eftir og það að sé einnig kostur að vera lítið hágæðadekkjafyrirtæki í heimi stórra risa. Lykillinn hafi verið að setja sama rétta teymið, réttu fjárfestana og svo þróa réttu vöruna byggt á markaðsþörfinni.

Að hans sögn eru vetrardekkjarisarnir Nokian Tyres, Michelin og Continental og þeir selja sín dekk um víðan völl en ICELAND TYRES einblínir sérstaklega á Norðurlöndin og norræna teymið fékk frjálsar hendur til að þróa harðgert norrænt vetrardekk fyrir erfið akstursskilyrði. Gunnlaugur segir risana hafa því að nokkru leyti misst sjónar á markaðsþörfinni á þessum sérstaka markaði og ICELAND TYRES hefur því skapað sér nokkra sérstöðu enda séu „íslensku dekkin hönnuð af Norðurlandabúum fyrir Norðurlöndin og án málamiðlana“.

Furðulegt að vera með ástríðu fyrir dekkjum

Gunnlaugur segir einnig að ICELAND TYRES vinni í dag að frekari þróun á sjálfbærni og umhverfisvernd í dekkjaiðnaðinum þegar til lengri tíma er litið. „Til dæmis erum við að þróa með Imperial College London sjálfbæra endurvinnslu á dekkjum, verkefni sem hefur þegar hlotið þróunarstyrk frá bresku ríkisstjórninni. Sú þróunarvinna byggist á því að endurnýta hráefni úr notuðum dekkjum, m.a. til að framleiða ný hágæðadekk, sem endurheimtir hráefnisverðmætin og dregur verulega úr umhverfisáhrifum þessa iðnaðar.“

Loks segir Gunnlaugur að allt teymið hjá ICELAND TYRES hafi unnið saman að verkefninu af mikilli ástríðu og því hafi verkið gengið vel með þolinmæði og þrautseigju. „Það hljómar kannski furðulega að vera með ástríðu fyrir dekkjum, sem flestir sjá sem svarta hringi með gat í miðjunni, en staðreyndin er sú að með þessari ástríðu hefur teymið náð að þróa íslenska hágæðavöru í ákveðnum sérflokki sem okkar fyrsta skref í lengra ferðalagi,“ segir hann að lokum.

Gunnlaugur Erlendsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Gunnlaugur Erlendsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. ljósmynd/ICELAND TYRES
Óneglda dekkið ICELAND SNOW er annað þeirra sem fyrirtækið framleiðir.
Óneglda dekkið ICELAND SNOW er annað þeirra sem fyrirtækið framleiðir. ljósmynd/ICELAND TYRES
Neglda dekkið ICELAND ICE er annað þeirra sem fyrirtækið framleiðir.
Neglda dekkið ICELAND ICE er annað þeirra sem fyrirtækið framleiðir. ljósmynd/ICELAND TYRES
Dekkin voru prófuð í Norður-Finnlandi.
Dekkin voru prófuð í Norður-Finnlandi. ljósmynd/ICELAND TYRES
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert