„Rán um hábjartan dag“

Félag ljósmæðra og önnur aðildarfélög BHM standa nú í harðri …
Félag ljósmæðra og önnur aðildarfélög BHM standa nú í harðri kjarabaráttu. mbl.is/Golli

Ljósmæður í verkfalli fengu líkt og um síðustu mánaðamót 60% frádrátt af launum þeirra við launaútborgun fyrir maí. Þetta segir Áslaug Íris Valsdóttir formaður félags ljósmæðra í samtali við mbl.is.

Um síðustu mánaðamót greindi mbl.is frá því að ljósmæður hafi sumar hverjar fengið um 25 þúsund krónur útborgaðar fyrir aprílmánuð, og ein jafnvel mínus 25 þúsund. Er það að sögn Landspítalans vegna þess að frádráttur launa vegna verkfalls eigi sér stað óháð því hvort um vinnuskyldu á verkfallsdögum sé að ræða eða ekki.

Áslaug segir að jafnvel þær ljósmæður sem hafi aðeins verið 1-2 daga í verkfalli í síðasta mánuði hafi fengið 60% frádrátt. „Þetta er reiknað þannig þrátt fyrir að ljósmæður hafi unnið alla vinnuskylduna. Útreikningarnir eru eins og við höfum bara unnið virka daga en við vinnum náttúrulega alla daga vikunnar, við erum ekki eins og dagvinnufólk,“ segir Áslaug en verkföll hjúkrunarfræðinga standa yfir þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.

Launagreiðendur sjálfir í verkfall

BHM gaf í maímánuði ríkinu fimm daga frest til þess að „leiðrétta þá misbresti sem orðið hafa á launagreiðslum“ í yfirstandandi verkföllum. Að sögn Áslaugar er nú verið að undirbúa málið áður en það fer fyrir Félagsdóm. Landspítalinn sé einnig nú loks farinn að beita sér í málinu. „Nú fyrst er Landspítalinn að skrifa Fjársýslu ríkisins bréf til þess að láta gera eitthvað í þessu en þetta hefur nú gerst þrjá mánuði í röð. Þetta hlýtur að vera ólöglegt að halda eftir launum fyrir fulla vinnu. Það er mjög bagalegt ef þú ert kannski einn dag í verkfalli í einum mánuði og færð 60% launanna dregin af þér. Mér finnst þetta bara vera rán um hábjartan dag.“

Fjársýsla ríkisins sér um að reikna og greiða út laun ljósmæðra en nú er staðan sú að starfsmenn Fjársýslunnar eru sjálfir á leið í verkfall á miðnætti. „Það er rétt að þeir starfsmenn eru líka að hefja verkfall. Ég hef hins vegar trú á að þetta verði leiðrétt, þrátt fyrir allt hef ég ennþá trú á kerfinu,“ segir Áslaug.

Verkfallssjóðurinn í blóma

Áslaug segist hissa á að ekki sé meiri samningsvilji fyrir hendi enda ekkert heyrt í viðsemjendum í svolítinn tíma. „Það er gott hljóð í okkur ljósmæðrum, við tökum þessu ansi vel en við erum orðnar pínu hissa á að það skuli ekki vera neinn samningsvilji. Við sitjum bara við símann en höfum ekkert heyrt,“ segir Áslaug og bætir við að verkfallssjóðurinn standi vel. „Hann er í blóma,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka