„Ég lít svo á að Ísland sé umsóknarríki. Það var Alþingi sem ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu og mér finnst það fullkomlega út í hött að utanríkisráðherra skuli halda að það sé hægt að slíta viðræðunum með þessum hætti,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is en eins og greint var frá fyrir helgi hefur Evrópusambandið ákveðið að verða við ósk ríkisstjórnarinnar og fjarlægja Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki að sambandinu.
„Kannski fyrir kurteisissakir hefur Evrópusambandið ákveðið að taka nafn Íslands af vefsíðum en ef nýr stjórnarmeirihluti, til dæmis eftir næstu þingkosningar, kýs að halda viðræðunum áfram þá verður auðvitað á það bent að þeim hafi aldrei verið slitið eins og hefði átt að slíta þeim. Ég myndi þá gera ráð fyrir að þau sjónarmið myndu mæta skilningi hjá Evrópusambandinu,“ segir Guðmundur. Spurður hvort hann telji að vefsíður Evrópusambandsins gefi þannig ranga mynd af stöðu mála segir hann:
„Staðan er bara sú að viðræður eiga ekki stað. Þær eru á pásu. Það getur vel verið að Evrópusambandið hafi kosið að sýna þeirri afstöðu núverandi stjórnarmeirihluta skilning með því að gera ekki meira í viðræðunum. En það var Alþingi sem ákvað formlega að sækja um aðild og það er náttúrulega bara Alþingi eða þjóðin sem getur slitið viðræðunum af okkar hálfu. Ég held að það sé komin upp sú staða að utanríkisráðherra heldur að hann hafi slitið þessu en ég held að restin af veröldinni viti að hann hafi ekki gert það og þar við situr.