Ljóst er að stærðargráða þeirra launahækkana sem sem samið hefur verið um í kjaraviðræðum að undanförnu er slík að það mun hafa einhvern verðbólguþrýsting í för með sér sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í morgun í svari við fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar.
„Þó finnst mér að við séum að fá niðurstöðu í þau mál sem er þó nokkuð vægari eða mildari hvað varðar verðbólguáhrif en margt af því sem maður heyrði í umræðunni undanfarna mánuði og óttaðist að yrði á endanum niðurstaðan,“ sagði ráðherrann ennfremur. Guðmundur spurði að því hvernig boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar til þess að liðka fyrir kjarasamningum á almennum markaði færu saman við launahækkanir í þessum efnum.
„Við erum að hrinda í framkvæmd skattalækkunum til þess að styðja við gerð kjarasamninga og við látum þær taka gildi yfir lengri tíma þannig að ég held að þær styðji vel við gerð kjarasamninga og þetta tvennt eitt og sér sé ekki til trafala. Tollalækkanir á föt og skó munu færa verslun aftur inn í landið og það er í mínum huga ekki til þess fallið að raska þessu jafnvægi,“ sgaði Bjarni.
Ef efnahagslífið væri hins vegar skoðað burtséð frá yfirstandandi kjaradeilum væru Íslendingar að upplifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma ef vel spilaðist úr hlutunum sem væri jákvætt. „Það er meiri vöxtur í kortunum á Íslandi en víðast hvar annars staðar. En hvernig okkur mun ganga í glímunni við verðbólguna er kannski stóra spurningin.“